Saturday, October 07, 2006

4. Kynntu þér vefsetrin hér að ofan. Veldur tvær til þrjár námskenningar, útskýrðu þær og berðu þær saman. Tengdu niðurstöðuna eigin starfskenningu

Ókei, byrjum á því sem ég er búinn að læra (en hvernig...?) að sé slæmt, úrelt og asnalegt.

Smith, M. K. (1999) 'The behaviourist orientation to learning', the encyclopedia of informal education, www.infed.org/biblio/learning-behavourist.htm, Last update: January 30, 2005.

Þegar ég var í menntaskóla tók ég valkúrs í sálfræði hjá kennara sem er nú allþekktur heimspekingur og er kominn af góðu fólki. Eitt af verkefnum annarinnar var að halda lífinu í hvítri rottu og reyna að kenna henni að ýta á takka til að verða sér úti um matarbita. Þegar rottugreyið hafði lært þetta og var orðin sjálfbær í búrinu sínu fékk ég að færa markstangirnar, svo ég noti fótboltamál) og nú fékk rottan smávægilegt raflost þegar hún ýtti á matartakkann.

Þetta var nám í sinni einföldustu mynd.

Vinur minn í æsku sagði mér sögu af sjálfum sér einu sinni. Við höfum öll verið í matvöruverslun þar sem lítið barn vill fá nammi og þegar foreldrið neitar beitir barnið kúgunaraðferðinni að garga og benda umheiminum á grimmilegt innræti þess fullorðna, foreldrinu til ævarandi skammar. Þetta sagðist vinur minn hafa reynt einu sinni í búð með pabba sínum. Hann fékk löðrung fyrir og lærði að þessi aðferð dugði ekki.

Þegar ég var í barnaskóla höfðum við strákarnir mikinn áhuga á síðari heimsstyrjöld, eins og stráka er siður. Einhverra hluta vegna ákváðum við að verða vilhallir þeim sem á endanum töpuðu stríðinu og lékum okkur við að teikna hakakrossa og æfa gæsagang og nasistakveðjur. Sem strákum fannst okkur hermenn flottir og við sáum ekki mikinn mun á þeim þýsku og þeim bandarísku, nema kannski það að sumir okkar höfðu heyrt heima hjá okkur að þeir bandarísku sem ættu heima á þeim goðsagnakennda stað Miðnesheiði (hljómar eins og eitthvað úr Tolkien ef maður pælir í því) væru vondir menn og ættu að drulla sér heim til sín. Og á myndræna sviðinu höfðu þeir þýsku yfirhöndina. Einn daginn varð mér það á að svara kennaranum í röðinni fyrir utan stofuna. Hún var að skamma mig og ég svaraði (litli málamaðurinn): Ja Mein Fuhrer! Ég var tekinn föstum tökum fyrir þessa yfirsjón og lærði að ekki er öllum vel við nazista.

Skoðum samt þessa vísu sem sungin var í barnaskólanum mínum:

Bjallan hringir, við höldum
Heim úr skólanum glöð
Prúð og frjálsleg í fasi,
Fram nú allir í röð!

En hvert er ég að fara með þessu öllu? Í sem stystu máli þangað, að Skinner-aðferðin er óumdeilanlega nám. Og nám sem tekur stuttan tíma og endist vel. Stimulus-response er og mun alltaf verða hluti af námi. Hins vegar sést eflaust á því hversu neikvæð dæmi ég valdi að það er von mín að fleira búi í hugtakinu nám en þetta.

Nú, það hlaut alltaf að vera tímaspursmál hvenær ég færi hér að tjá mig um Howard Gardner. Þannig vill til að móðir mín er mesti sérfræðingur Íslandssögunnar um fjölgreindakenningar hans. Howard frændi, eins og ég kýs að kalla hann, hefur haft gríðarleg áhrif á það hvernig margir hugsa um nám og ekki síður kennslu. Kenning hans um fjölgreindir gerði hann að stjörnu, og mér skilst að stundum bölvi hann forlögum sínum eins og James Tyrone í Dagleiðinni löngu inn í nótt, sem allan sinn leikaraferil neyddist til að leika sama hlutverkið.

Sjálfum hefur mér alltaf fundist það vera, svo maður vitni í Þórberg, selvfølgeligheder að heilinn, hugurinn, námið og kennslan virki á margvíslega vegu. Mér datt einu sinni í hug að bera saman fjölgreindirnar og hinar klassísku frjálsu listir. Og nú koma krækjur:

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5641

http://www.learningandteaching.info/learning/multiple.htm

Það má finna ýmsa paralella hér:

Málfræði – málgreind
Rökfræði – rök- og stærðfræðigreind
Mælskulist – samskiptagreind
Reikningur - ...ööö, rök- og stærðfræðigreind
Tónlist – tónlistargreind
Rúmfræði – rýmisgreind
Stjörnufræði – tjah, kannski helst umhverfisgreindin

Nú og svo má auðvitað heimfæra sjálfsþekkingargreindina uppá heimspeki og benda á hvernig Ólympíuleikarnir veittu hinum líkams- og hreyfigreindu útrás á klassískum tímum.

Ég skal hins vegar játa það að mér hefur veist það erfitt að nýta þessa kenningu eða finna henni stað í minni eigin starfskenningu. Það helgast ef til vill af því að ég skilgreini mig sem tungumálakennara og er því að mörgu leyti njörvaður, sem er galli á gjöf Njörðs.

Sáuði hvernig ég beitti málgreindinni þarna til að búa til skemmtilegan orðaleik?

En það er að byrja að renna upp fyrir mér að ég hef auðvitað aðeins reynslu af kennslu á unglingastigi þar sem SÍAN MIKLA (les: samræmdu prófin) gerir það að verkum að erfitt er að líta á nám sem annað en afurð. Og þótt hægt sé að veita Howard frænda ”lip service” með því að prófa að fara í leiki á útlensku (til að höfða til hinna líkams- og hreyfigreindu – sem yfirleitt virðast bæði lesblindir og með ADHD), eða nota tónlist til að höfða til hinna tónlistargreindu, þá er því miður of mikil pressa á kennara að framleiða nógu mikið kjötfars fyrir samfélagið til þess að þeir megni að beina kennslunni að öðru en því þrönga sviði sem prófin hafa áhuga á.

Mér er reyndar líka sagt að Howard frændi hafi sjálfur lítt leitt hugann að því að kenning hans um greindir kæmi að notum í tungumálanámi. Hafi jafnvel komið honum gríðarlega á óvart þegar kennarar fundu upp leiðir til þess.

Nú. Sjaldan lendir maður í því að nota orðið selvfølgeligheder oftar en einu sinni á dag. En nú er það svo að ég ætla að tala um nokkuð sem flestu skólafólki finnst vera... já ég nenni ekki að nota ”insert symbol” einu sinni enn til að koma þessum danska staf inn í textann, þið vitið hvað ég meina.

Sem barn heyrði ég móður mína oft tala um mann sem ég hélt fyrst að héti Pési. Samt var nafnið hans oftast borið fram á undarlegan hátt: Pésé. Þetta var fyrir daga heimilistölvunnar þannig að sá misskilningur varð ekki, en í dag veit ég að verið var að tala um mann sem skoðaði snigla og öðlaðist þannig skilning á börnum.

En hvers vegna ætla ég hér að spjalla um Jean Piaget? Jú, vegna þess að ég hef aldrei lesið hann, og geri ráð fyrir að hann sé einn þeirra sem maður verður að kynna sér. Svipað og nemi í leiklistarsögu verður nauðsynlega að lesa sér til um hvernig forngrísk leiklist þróaðist jafnvel þótt sú vitneskja komi yfirleitt nútímauppfærslum á grískum harmleikjum lítið við.

Og ég sé hér: http://www.learningandteaching.info/learning/piaget.htm að Berkeley biskup hafði þroska á við hvítvoðung þegar hann mælti fram hin frægu orð esse est percipi. Þessi setning er ein af hornsteinum heimspekinnar og auðvitað þýðir það að hún er okkur öllum sameiginleg. Berkeley var að velta fyrir sér ontólógíu heimsins á sama hátt og ungabarnið: er hlutur til þegar hann sést ekki? Eða eins og í klisjunni: ef tré fellurí skóginum og enginn er nálægt, heyrist þá hljóð?

Þetta er fyrsta þroskastig Piagets, að læra muninn á sjálfum sér og heiminum.

Stig tvö, sem fylgir leikskólaaldri, snýst um að læra að nota tungumálið um heiminn og flokka það sem í honum er á einfaldan hátt. Sjónarhornið er hér egósentrískt.

Á þriðja stigi, sem fylgir barnaskólaaldri, kemur rökhugsun á sjónarsviðið og flokkun hluta verður flóknari.

Og það er ekki fyrr en á fjórða stigi, eftir ellefu ára aldur, sem abstrakt-hugsun verður til.

Með auknum þroska gerist líka annað, aðlögun (accommodation) verður erfiðari og hugurinn reiðir sig í auknum mæli á aðhæfingu (assimilation). Þarna eru skemu farin að stjórna því hvernig við hugsum um heiminn, og því er orðið mikilvægara að höfða til þeirra í kennslu. Nýverið lukum við við okkar fyrsta kennsluverkefni hjá Hafdísi og það sló mig hversu mikilvægt kennaranemum (að mér meðtöldum) fannst að höfða til þess sem nemendur þekkja og hafa áhuga á. Mér sýnist það vera eitt af einkennum unglingakennslu að hún verður auðveldari ef manni tekst að láta hana fjalla um eitthvað sem nemendur höfðu áhuga á i forvejen.

Rithöfundurinn Douglas Adams skilgreindi þetta svona:
1. Allt sem var fundið upp áður en þú fæddist er hluti af hinni náttúrulegu skipan heimsins.
2. Allt sem var fundið upp eftir að þú fæddist en áður en þú náðir 35 ára aldri er spennandi og sennilega þess virði að gera það að ævistarfi.
3. Allt sem er fundið upp eftir að þú nærð 35 ára aldri er ónáttúrulegt og djöfullegt.

Í tímanum hjá Hafdísi sá ég kennara styðja sig við kennsluefni um Nylon, Shakiru og Paris Hilton. Ástæðan fyrir þessu vali var ávallt sú sama, kennaranemar vildu tryggja að efnið vekti áhuga nemenda áður en reyndi á hvort kennarinn gæti það. Mér finnst það umhugsunarvert og spyr sjálfan mig hvort ekki eigi að ætlast til þess að kennari kynni nýja heima fyrir nemendum sínum?