Sunday, October 15, 2006

6. Skoðaðu skjásýningu Tarlinton og tengdu framhaldskólakennslu í þinni grein

Inngangur að kennslufræði
Leiðarbókarverkefni 6
Undirbúningur og markmiðssetning

Nú liggur fyrir mér það verkefni að kenna nemendum óreglulegar sagnir í ensku. Þær eru gríðarlega margar en í dag skulum við takmarka okkur við rúmlega 80, eða eftirtaldar:

Be, become, begin, blow, break, bring, build, burst, buy, catch, choose, come, cut, deal, do, drink, drive, eat, fall, feed, feel, fight, find, fly, forbid, forget, forgive, freeze, get, give, go, grow, have, hear, hide, hold, hurt, keep, know, lay, lead, leave, let, lie, lose, make, meet, pay, quit, read, ride, ring, rise, run, say, see, seek, sell, send, shake, shine, sing, sit, sleep, speak, spend, spring, stand, steal, swim, swing, take, teach, tear, tell, think, throw, understand, wake, wear, win og write.

Þetta verður örugglega ekkert mál! En hvert er markmiðið? Hvers vegna ætla ég að kenna þessar sagnir og hvað eiga nemendur að gera við þær ef/þegar þeir hafa lært þær?

Nú, til dæmis gæti ég viljað byrja neðst og óska eftir því að nemendur muni þessar sagnir. Við hættum okkur ekki út á hið hála svell beyginga, heldur látum okkur nægja að leggja það á minnið HVAÐA sagnir eru óreglulegar. Við skilgreinum heldur ekki hvað það merkir að sögn sé óregluleg.

Það gæti til dæmis verið hægt að búa til vísu á borð við þessa:

Annar, fáeinir, enginn, neinn,
ýmis, báðir, sérhver,
hvorugur, sumur, hver og einn,
hvor og nokkur, einhver.

Vísan er ágæt en gerir takmarkað gagn ein og sér. Til að hún komi að gagni þarf auðvitað fleira en að kunna hana utanbókar, hvað svo sem tengdapabbi segir.

(Tengdapabbi var kennari í meira en hálfa öld og lét þau fleygu orð falla eitt sinn þegar við spjölluðum saman að öll æðri þekking væri byggð á utanbókarlærdómi.)

Ef það á að nægja að nemendur muni óreglulegu sagnirnar er námsmatið orðið létt verk og löðurmannlegt, ekki þarf nema að biðja nemendur að nefna þær allar.

Nú skulum við hins vegar gefa okkur að það sé ekki nóg að nemendur muni óreglulegu sagnirnar, heldur að skilnings sé þörf. Markmiðið er sem sagt að þeir viti HVAÐ óreglulegar sagnir eru. Við göngum út frá því að þeir hafi þegar náð tökum á reglulegri beygingu, og þá liggur verkefnið ljóst fyrir: Að nemendur átti sig á því að um þessar sagnir gilda aðrar reglur þegar kemur að beygingu þeirra. Þannig útskýrir kennarinn að þessar sagnir taki ekki hina hefðbundnu ed-endingu, sumar beygist með hljóðvarpi: drink – drank – drunk, en aðrar ekki neitt: quit – quit - quit.

Námsmat í þessu tilviki gæti byggt á því að nemendur útskýri í eigin orðum hver sé munurinn á reglulegum og óreglulegum sögnum.

Jæja, en þar sem um tungumálanám er að ræða þarf líklega að geta beitt nýfenginni þekkingu. Við tökum eitt skref í einu og höldum okkur við skriflega beitingu orðanna utan samhengis. Hér erum við farin að gera þær kröfur til nemenda að þeir geti t.d. beygt sagnirnar. Við gefum þeim dæmið: run – ran – run og biðjum svo um að þeir beygi sögnina to begin út frá dæminu. Verði niðurstaða þeirra begin – began – begun eru allir sáttir og við erum farin að geta beitt óreglulegum sögnum.

Rökrétt framhald af því að komast að skyldleika sagnanna to run og to begin er þá að greina sagnirnar og reyna að komast að því hvort um fleiri slík skyldleikatengsl sé að ræða. Heppnist nemendum að ná tökum á þessu má reikna með því að þeir tengi saman sagnirnar to blow, to fly, to grow, to know og to throw. Fleiri flokkar verða til en ég læt þennan nægja sem dæmi. Hæfilegt verkefni fyrir nemendur sem ráða vel við þetta gæti verið að búa til töflu sem flokkar sagnirnar eftir því hvernig þær beygjast.

Flokkunarkerfið er þó ef til vill ekki óskeikult og nú reynir á hæfni nemenda til að meta vafaatriði. Sagnirnar sem ég tók sem dæmi hér að ofan beygjast flestar nákvæmlega eins:
Blow – blew – blown
Fly – flew – flown
Grow – grew – grown
Know – knew – known
Throw – threw – thrown

Nú gæti verið tilefni til að efna til pallborðsumræðna í bekknum varðandi sögnina to see, hvort hún eigi heima í þessum sama hópi miðað við beyginguna:
See – saw – seen
Ljóst er að þarna er um ákveðinn sameiginlegan flöt að ræða en dugar það til? Hér er góður efniviður til rökræðna og ábyggilegt að sitt mun sýnast hverjum.

Að lokum væri svo óskandi að unnt væri að virkja sköpunargáfu nemendanna. Hér eru engin takmörk fyrir því sem gæti orðið til – kennsluleikþáttur um barn sem hittir persónugerðar sagnir á förnum vegi og lærir af þeim hvernig þær beygjast, forrit sem greinir óreglulegar sagnir og sýnir hvernig þeim skal beitt, minnis-spil þar sem mismunandi beygingarmyndir mynda sortirnar og þannig mætti lengi telja.

Og ég sem hélt að óreglulegar sagnir væru þurrt og leiðinlegt kennsluefni!