Æfingakennsla er lærdómsrík!
Starf á vettvangi
Fyrstu tvær stundirnar í æfingakennslu – ígrundun
24. og 25. október
Í þessari viku kenndi ég tvær kennslustundir í ENS 403. Fyrri kennslustundin heppnaðist vonum framar. Ég byrjaði á því að flytja lítinn fyrirlestur um Harold Pinter, þar sem nemendahópurinn er einmitt að hefja lestur eins leikrita hans. Hópurinn var áhugasamur og mér þótti fyrirlesturinn ganga vel og vera lifandi og skemmtilegur. Markmiðið hjá mér var að setja höfundinn í samhengi við aðra höfunda af svipuðum toga, við absúrdleikhús og kalda stríðið, í þeim tilgangi að nemendurnir eigi auðveldara með að átta sig á leikritinu, enda er það allfurðulegt bókmenntaverk. Í fyrirlestrinum studdist ég við Power-point og þótti mér takast ágætlega að nýta það.
Næst á dagskrá var að fara yfir verkefni sem nemendur áttu að hafa unnið heima, en Kris hafði sett það fyrir daginn áður. Hér var ég ekki alveg nægilega undirbúinn. Verkefnið gekk út á að púsla saman textabrotum í eina heild og þar sem næsta verkefni tengist umfjöllunarefni textans, sem er “glæpir og refsingar,” hafði ég tekið þá ákvörðun að lesa allan textann fyrir hópinn, frekar en að segja bara: “á eftir textabrotinu sem er merkt nr. 4 kemur textabrotið sem er merkt með F.” Ég notaðist hér við skjávarpann en varð það á að nota einungis Word-skjal til að sýna hvernig textabrotin ættu að raðast saman. Textinn hjá mér var allt of smár og þar að auki notaði ég ekki hentugustu leturgerðina. Kris benti mér á það eftir tímann að í hópnum væru nokkrir með dyslexíu og ég ákvað að passa mig betur næst að koma til móts við þá nemendur.
Eftir að textanum hafði verið púslað saman kom ég af stað umræðum um efnið og kom það mér skemmtilega á óvart hversu fjörugar og líflega umræðurnar urðu. Ég þurfti á tímabili bókstaflega ekkert að hafa mig í frammi. Eftir á að hyggja hefði ég þó eflaust getað gert meira af því að leita eftir þátttöku allra í umræðunum en sumir sátu á strák sínum. Þegar umræðan vék að atviki sem varð í skólanum fyrir nokkrum dögum hitnaði nokkrum í hamsi en mér heppnaðist að draga úr spennunni og er bara nokkuð ánægður með það. Það er alveg hugsanlegt að þegar umræðuefnið verður svona nátengt nemendum geti spjallið farið úr böndunum en mér fannst mér takast að afstýra því svo lítið bar á. Ég beindi að lokum umræðunni að dauðarefsingum og aftur hitnaði nokkrum í hamsi. Einn nemandi kom með innlegg sem mér fannst frábær endapunktur á þetta spjall og ég notaði þá tækifærið og batt enda á umræðuna.
Hugsanlega var það dálítið bratt hjá mér en það var af ásettu ráði, þar sem ég vildi að hópurinn sneri sér að öðru. Ég endaði kennslustundina á því að láta nemendur leysa orðaþraut með orðaforða sem þau voru nýbúin að kynna sér og fannst mér það líka ganga vel. Nemendur komu sér beint að verki og unnu flestir vel.
Eftir tímann fékk ég svo nokkrar ábendingar, svo sem að betra hefði verið að tímasetja kennsluáætlunina. Einnig var mér bent á að hugleiða hvaða kennsluaðferðum ég var að beita í tímanum. Ég skal viðurkenna að ég hafði ekki spáð mikið í það fyrirfram, en eftir á að hyggja get ég fullyrt að ég var nokkuð gamaldags í þeim efnum. Fyrst flutti ég fyrirlestur, næst kom sýnikennsla, þá stýrðar umræður og loks vinnublaðaverkefni.
Daginn eftir kenndi ég svo sama hópi aftur og nú var aldeilis annað uppi á teningnum. Í tónlistarbransanum er talað um fyrirbæri sem nefnist “second album syndrome” en það vísar til þess þegar ný hljómsveit kemur fram á sjónarsviðið og slær í gegn með sinni fyrstu plötu. Það kveður við nýjan tón og hann vekur hrifningu. Vandinn er svo hvernig hægt er að fylgja þessari velgengni eftir. Oftar en ekki eru viðbrögðin við plötu númer tvö þau að “mér fannst nú fyrri platan betri.”
Nú var byrjað á því að taka upp kennslubækurnar og hefjast handa við verkefni sem ég hafði kynnt nemendum í mýflugumynd í blálok tímans daginn áður. Ætlunin hjá mér var að koma af stað umræðum um glæpi og refsingar og leyfa síðan nemendum að nota efni umræðunnar í ritunarverkefni. Engin var kveikjan og þar sem kennslustundin hófst á þeirri gömlu tuggu “takið nú upp bækurnar,” gekk mér mjög erfiðlega að fá nemendur til þess að taka þátt. Í byrjun ætlaði ég að láta hópinn hugstorma um hina ýmsu glæpi en það var eins og að draga tennur úr krökkunum. Mér urðu einnig á mikil mistök þegar einn nemandi kom með tillögu sem var eilítið klaufalega orðuð hjá honum. Ég sá mér leik á borði að koma með brandara, en það hefði ég betur látið ógert. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og þarna hefði ég hæglega getað sært nemandann. Hann tók gríninu sem betur fer vel og mér lánaðist að bæta fyrir brot mitt að einhverju leyti með því að koma aftur að tillögu hans og fá hann til að útlista hana betur svo ég gæti hrósað honum fyrir gott innlegg.
Í framhaldi af þessu reyndi ég svo að fá nemendur til að nefna hinar og þessar refsingar sem beitt er, kosti þeirra og galla og nú fóru nemendur að taka eilítið meiri þátt. Fleiri og fleiri orð sem nemendur ættu að geta notað bættust á töfluna og mér fór að lítast þannig á blikuna að nú væri hægt að koma nemendum í gang með ritunarverkefnið, sem er stutt blaðagrein um glæpi unglinga og úrræði gegn þeim.
Tveir nemendur sem ég hef oft fylgst með þegar ég hef verið að horfa á Kris kenna eyddu nær allri kennslustundinni að skoða einhver gamanmál í tölvunni sinni. Þegar flissið í þeim var farið að verða truflandi tók ég á honum stóra mínum og lét þær loka tölvunni. Kris var ánægð með það.
Þegar ég hafði útskýrt ritunarverkefnið fyrir nemendum og ætlaðist til þess að þeir hæfust handa komu upp þrjú tilvik þar sem ég hélt illa á spöðunum. Fyrst sagðist einn nemandi ekki skilja verkefnið. Ég brást við því með því að útskýra það aftur á nákvæmlega sama hátt og áður og auðvitað þorði nemandinn ekki annað en að þykjast skilja. Annar nemandi spurði hvort hann ætti að skrifa um einn glæp eða marga, og aftur féll ég í þá gryfju að útskýra sama hlutinn aftur eins og bilaður grammófónn. Þá reis þriðji nemandinn úr sæti, gekk að Kris og hvíslaði einhverju að henni, kom svo til mín og bað um að fá að tala við mig. Við fórum fram á gang og þar sagðist nemandinn vera með alvarlega dyslexíu og ómögulega geta skrifað. Ég hefði getað sparkað í sjálfan mig fyrir tillitsleysið. Sagði nemandanum að hafa ekki áhyggjur, en spurði hvort hún gæti lokið verkefninu heima, sem hún sagði að væri ekkert mál. Hún hefur ekki mætt síðan.
Nú leit ég á klukkuna, svo á kennsluáætlunina og sá að samkvæmt henni var komið að því að fjalla um Pinter. Á afar klaufalegan hátt skipaði ég því nemendum að hætta að vinna að ritunarverkefninu. Tímasetningin var afar óheppileg þar sem flestir voru rétt að komast í gang. Þar næst kom í ljós að fæstir voru með leikritið með sér og það tók allnokkurn tíma að fá hópinn til að snúa sér að næsta verkefni. Á endanum tókst hins vegar að koma vinnu í gang og lét ég hópinn leiklesa verkið. Ég fékk nokkra nemendur til að lesa hver sitt hlutverk, stöðvaði lesturinn eftir nokkrar blaðsíður og skaut inn útskýringum, spurningum og ábendingum. Lesturinn gekk nokkuð vel þrátt fyrir að ekki væru allir að fylgjast með og vakti lesturinn nokkra kátínu hjá sumum nemendum. Ekki komumst við hinsvegar eins langt og ég hefði viljað en við sjáum til hvernig gengur næst.
Fyrstu tvær stundirnar í æfingakennslu – ígrundun
24. og 25. október
Í þessari viku kenndi ég tvær kennslustundir í ENS 403. Fyrri kennslustundin heppnaðist vonum framar. Ég byrjaði á því að flytja lítinn fyrirlestur um Harold Pinter, þar sem nemendahópurinn er einmitt að hefja lestur eins leikrita hans. Hópurinn var áhugasamur og mér þótti fyrirlesturinn ganga vel og vera lifandi og skemmtilegur. Markmiðið hjá mér var að setja höfundinn í samhengi við aðra höfunda af svipuðum toga, við absúrdleikhús og kalda stríðið, í þeim tilgangi að nemendurnir eigi auðveldara með að átta sig á leikritinu, enda er það allfurðulegt bókmenntaverk. Í fyrirlestrinum studdist ég við Power-point og þótti mér takast ágætlega að nýta það.
Næst á dagskrá var að fara yfir verkefni sem nemendur áttu að hafa unnið heima, en Kris hafði sett það fyrir daginn áður. Hér var ég ekki alveg nægilega undirbúinn. Verkefnið gekk út á að púsla saman textabrotum í eina heild og þar sem næsta verkefni tengist umfjöllunarefni textans, sem er “glæpir og refsingar,” hafði ég tekið þá ákvörðun að lesa allan textann fyrir hópinn, frekar en að segja bara: “á eftir textabrotinu sem er merkt nr. 4 kemur textabrotið sem er merkt með F.” Ég notaðist hér við skjávarpann en varð það á að nota einungis Word-skjal til að sýna hvernig textabrotin ættu að raðast saman. Textinn hjá mér var allt of smár og þar að auki notaði ég ekki hentugustu leturgerðina. Kris benti mér á það eftir tímann að í hópnum væru nokkrir með dyslexíu og ég ákvað að passa mig betur næst að koma til móts við þá nemendur.
Eftir að textanum hafði verið púslað saman kom ég af stað umræðum um efnið og kom það mér skemmtilega á óvart hversu fjörugar og líflega umræðurnar urðu. Ég þurfti á tímabili bókstaflega ekkert að hafa mig í frammi. Eftir á að hyggja hefði ég þó eflaust getað gert meira af því að leita eftir þátttöku allra í umræðunum en sumir sátu á strák sínum. Þegar umræðan vék að atviki sem varð í skólanum fyrir nokkrum dögum hitnaði nokkrum í hamsi en mér heppnaðist að draga úr spennunni og er bara nokkuð ánægður með það. Það er alveg hugsanlegt að þegar umræðuefnið verður svona nátengt nemendum geti spjallið farið úr böndunum en mér fannst mér takast að afstýra því svo lítið bar á. Ég beindi að lokum umræðunni að dauðarefsingum og aftur hitnaði nokkrum í hamsi. Einn nemandi kom með innlegg sem mér fannst frábær endapunktur á þetta spjall og ég notaði þá tækifærið og batt enda á umræðuna.
Hugsanlega var það dálítið bratt hjá mér en það var af ásettu ráði, þar sem ég vildi að hópurinn sneri sér að öðru. Ég endaði kennslustundina á því að láta nemendur leysa orðaþraut með orðaforða sem þau voru nýbúin að kynna sér og fannst mér það líka ganga vel. Nemendur komu sér beint að verki og unnu flestir vel.
Eftir tímann fékk ég svo nokkrar ábendingar, svo sem að betra hefði verið að tímasetja kennsluáætlunina. Einnig var mér bent á að hugleiða hvaða kennsluaðferðum ég var að beita í tímanum. Ég skal viðurkenna að ég hafði ekki spáð mikið í það fyrirfram, en eftir á að hyggja get ég fullyrt að ég var nokkuð gamaldags í þeim efnum. Fyrst flutti ég fyrirlestur, næst kom sýnikennsla, þá stýrðar umræður og loks vinnublaðaverkefni.
Daginn eftir kenndi ég svo sama hópi aftur og nú var aldeilis annað uppi á teningnum. Í tónlistarbransanum er talað um fyrirbæri sem nefnist “second album syndrome” en það vísar til þess þegar ný hljómsveit kemur fram á sjónarsviðið og slær í gegn með sinni fyrstu plötu. Það kveður við nýjan tón og hann vekur hrifningu. Vandinn er svo hvernig hægt er að fylgja þessari velgengni eftir. Oftar en ekki eru viðbrögðin við plötu númer tvö þau að “mér fannst nú fyrri platan betri.”
Nú var byrjað á því að taka upp kennslubækurnar og hefjast handa við verkefni sem ég hafði kynnt nemendum í mýflugumynd í blálok tímans daginn áður. Ætlunin hjá mér var að koma af stað umræðum um glæpi og refsingar og leyfa síðan nemendum að nota efni umræðunnar í ritunarverkefni. Engin var kveikjan og þar sem kennslustundin hófst á þeirri gömlu tuggu “takið nú upp bækurnar,” gekk mér mjög erfiðlega að fá nemendur til þess að taka þátt. Í byrjun ætlaði ég að láta hópinn hugstorma um hina ýmsu glæpi en það var eins og að draga tennur úr krökkunum. Mér urðu einnig á mikil mistök þegar einn nemandi kom með tillögu sem var eilítið klaufalega orðuð hjá honum. Ég sá mér leik á borði að koma með brandara, en það hefði ég betur látið ógert. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og þarna hefði ég hæglega getað sært nemandann. Hann tók gríninu sem betur fer vel og mér lánaðist að bæta fyrir brot mitt að einhverju leyti með því að koma aftur að tillögu hans og fá hann til að útlista hana betur svo ég gæti hrósað honum fyrir gott innlegg.
Í framhaldi af þessu reyndi ég svo að fá nemendur til að nefna hinar og þessar refsingar sem beitt er, kosti þeirra og galla og nú fóru nemendur að taka eilítið meiri þátt. Fleiri og fleiri orð sem nemendur ættu að geta notað bættust á töfluna og mér fór að lítast þannig á blikuna að nú væri hægt að koma nemendum í gang með ritunarverkefnið, sem er stutt blaðagrein um glæpi unglinga og úrræði gegn þeim.
Tveir nemendur sem ég hef oft fylgst með þegar ég hef verið að horfa á Kris kenna eyddu nær allri kennslustundinni að skoða einhver gamanmál í tölvunni sinni. Þegar flissið í þeim var farið að verða truflandi tók ég á honum stóra mínum og lét þær loka tölvunni. Kris var ánægð með það.
Þegar ég hafði útskýrt ritunarverkefnið fyrir nemendum og ætlaðist til þess að þeir hæfust handa komu upp þrjú tilvik þar sem ég hélt illa á spöðunum. Fyrst sagðist einn nemandi ekki skilja verkefnið. Ég brást við því með því að útskýra það aftur á nákvæmlega sama hátt og áður og auðvitað þorði nemandinn ekki annað en að þykjast skilja. Annar nemandi spurði hvort hann ætti að skrifa um einn glæp eða marga, og aftur féll ég í þá gryfju að útskýra sama hlutinn aftur eins og bilaður grammófónn. Þá reis þriðji nemandinn úr sæti, gekk að Kris og hvíslaði einhverju að henni, kom svo til mín og bað um að fá að tala við mig. Við fórum fram á gang og þar sagðist nemandinn vera með alvarlega dyslexíu og ómögulega geta skrifað. Ég hefði getað sparkað í sjálfan mig fyrir tillitsleysið. Sagði nemandanum að hafa ekki áhyggjur, en spurði hvort hún gæti lokið verkefninu heima, sem hún sagði að væri ekkert mál. Hún hefur ekki mætt síðan.
Nú leit ég á klukkuna, svo á kennsluáætlunina og sá að samkvæmt henni var komið að því að fjalla um Pinter. Á afar klaufalegan hátt skipaði ég því nemendum að hætta að vinna að ritunarverkefninu. Tímasetningin var afar óheppileg þar sem flestir voru rétt að komast í gang. Þar næst kom í ljós að fæstir voru með leikritið með sér og það tók allnokkurn tíma að fá hópinn til að snúa sér að næsta verkefni. Á endanum tókst hins vegar að koma vinnu í gang og lét ég hópinn leiklesa verkið. Ég fékk nokkra nemendur til að lesa hver sitt hlutverk, stöðvaði lesturinn eftir nokkrar blaðsíður og skaut inn útskýringum, spurningum og ábendingum. Lesturinn gekk nokkuð vel þrátt fyrir að ekki væru allir að fylgjast með og vakti lesturinn nokkra kátínu hjá sumum nemendum. Ekki komumst við hinsvegar eins langt og ég hefði viljað en við sjáum til hvernig gengur næst.
<< Home