Wednesday, November 01, 2006

8. Veldu þér eitthvert námssvið, t.d. þína námsgrein, og fjallaðu um þekkingarfræði þessa sviðs í ljósi þess sem kemur fram í lesefninu.












X'-theory er umfjöllunarefni námskeiðsins Linguistics II sem ég tek þátt í þessa dagana í enskuskor Háskóla Íslands. Kenningin leitast við að skýra uppbyggingu setninga með þeim hætti að sama teikningin sé nothæf til að tákna alla hluta hennar, þ.e. að öll orð hagi sér á sama hátt þegar þau tengjast öðrum orðum.

Hún er í stuttu máli svona: XP skiptist í specifier og X' - X' skiptist svo í og complement.
Þar sem X getur staðið fyrir hvort heldur sem er, nafnorð, sagnorð, lýsingarorð, atviksorð eða forsetningu.

Setningin "John believes that Bill likes icecream" greinist því þannig:
VP (verb phrase) skiptist þannig: "John" er specifier, "believes" er V° (sem útleggst verb head), en "that Bill likes icecream" er complement phrase sem nýtist sem modifier.
CP (complement phrase) skiptist: specifier-hólfið er autt, "that" er C° (complement head), en "Bill likes icecream" er inflectionary phrase sem nýtist sem modifier.
IP (inflectionary phrase) skiptist: "Bill" er specifier, beygingin (inflection) er I° (inflection head) og VP-ið "likes icecream" er modifier.
VP (verb phrase) skiptist þannig: specifier-hólfið er autt, "likes" er V° og "icecream" er modifier.

Kenningin inniheldur aukinheldur þá staðhæfingu að vera kunni að þetta kerfi sé okkur meðfætt, eða að minnsta kosti að kerfið sé það fyrsta sem lærist þegar barn lærir að tala. Og að þegar kerfið hafi verið lært sé máltakan orðin svo lítið mál að það er ekki lengur undravert hve fljót lítil börn eru að læra að tala. Eða þannig skildi ég Dr. Whelpton í morgun.

Þetta er dálítið áhugavert. Getur hugsast að setningar séu samsettar úr einskonar legókubbum sem fara misvel saman - eru mismunandi á litinn og misstórir - en smella hver við annan á nákvæmlega sama hátt sama hver þeirra á í hlut? Getur verið að þetta sé svona einfalt? Kenningin er meðal annars skýrð svona:

In place of a large number of specific and idiosyncratic rules for each of the lexical categories, we therefore have one basic template for the structure of lexical phrases, with idiosyncratic aspects of the structure of these phrases being listed in the argument structure of the head word in its lexical entry.

Það gildir ein regla um hvernig þú setur legókubba saman. Á hverjum kubbi eru sex hliðar. Fjórar þeirra eru sléttar og koma ekki við sögu þegar kubbar tengjast hver öðrum en á einni hlið eru upphleyptir hnúðar (ofaná) og á annarri eru holrúm (undir). Ef tveir kubbar snúa með sömu hlið upp og annar er settur ofan á hinn má festa þá saman. Þetta geta börn lært um svipað leyti og þau byrja að setja orð saman og mynda setningar.

Glaserfeld segir hérna að börn verði að uppgötva málkerfið af eigin rammleik. Fyrst þurfi þau að smíða merkingu allmargra orða en svo verði þau fær um að nota þau til að víkka tjáskiptamöguleika sína. Wittgenstein og "language games" eru líka nefnd til sögunnar og það er einmitt með þátttöku í slíkum leikjum sem reglurnar lærast, rétt eins og glíman við kubbana sýnir barninu hvernig best er að púsla þeim saman.

Og getur ekki verið að það sé einmitt vegna þess að reglurnar eru einfaldar og algildar að það er yfirhöfuð hægt að læra nýtt tungumál? Whelpton hefur sýnt fram á að X'-theory virkar jafnt á ensku, íslensku, frönsku og ítölsku. Hins vegar eru auðvitað ýmis ljón í veginum því tungumál mannanna mynda merkingu á misjafnan hátt. En ef hið undirliggjandi kerfi er eins (eða svipað) eru að minnsta kosti leikreglurnar ljósar.

Þetta kemur heim og saman við kenningar sem okkur voru lauslega kynntar í námskeiðinu Kennslu erlendra tungumála um kenningasmíð. Nærtækast er að minna á hvernig ég velti hér fyrir mér óreglulegum sagnorðum á ensku. Þegar ein staðreynd liggur fyrir (Know beygist know-knew-known) er smíðuð kenning um hvernig önnur orð muni haga sér (Throw ætti að öllum líkindum að beygjast throw-threw-thrown).

Þegar hluti málkerfisins hefur verið uppgötvaður eða smíðaður af nemandanum hjálpar sá hluti við smíð þeirra næstu. Hérna má sjá nokkra megin punkta að lokum:

1. Nemandinn smíðar merkingu úr skynjun. Þetta liggur í augum uppi þegar tungumálanám er annars vegar - nemandinn sér eða heyrir nýtt orð og kemst að merkingu þess með því að tengja það við reynslu sína og samhengið.

2. Merking lærist samhliða merkingarkerfum. Enn vísa ég í X'-theory, um leið og orð lærist fylgir óhjákvæmilega með að notkun þess í samhengi og tengsl þess við önnur orð lærast líka.

3. Nám á sér stað í huganum. Þegar um tungumál er að ræða er hugurinn alltaf virkur, að tala, hlusta, lesa, skrifa eða hugleiða. Reyndar finnst mér þetta eiga jafnt við um smíði - það eru ekki hendurnar sjálfar sem læra að beita sporjárninu.

4. Tungumálið er órofa hluti námsins. Þegar nýtt tungumál er numið er móðurmálið ávallt viðmiðið.

5. Nám er félagslegt. Fáar greinar byggja nútildags jafnmikið á tjáskiptum og erlend mál, nema ef vera kynni móðurmál. Að vísu eru til dæmi um málanám sem farið hefur fram í einangrun með furðugóðum árangri en einungis tjáskipti kenna manni að hestar eru ekki skjöldóttir.

6. Nám fer óhjákvæmilega fram í samhengi. Hér datt mér í hug að mótmæla því sem barn tókst mér að læra rússneska stafrófið án þess að læra eitt einasta orð í málinu. Hins vegar er augljóst þegar grannt er skoðað að stafrófið rússneska lærðist í samhengi við hið íslenska, þ.e. hvað er líkt og ólíkt.

7. Nám krefst þekkingar. Nú kemur X'-theory upp í hugann. Samkvæmt þeirri kenningu er að líkindum ómögulegt að læra að búa til setningu nema tökum hafi verið náð á málkerfinu að einhverju leyti.

8. Nám tekur tíma og er ferli en ekki viðburður. Hér leitar hugurinn til eigin reynslu af sænsku- og spænskunámi. Þegar ég var við nám í Stokkhólmi tók ég eftir því að nákvæmlega þremur vikum eftir að ég fluttist til landsins var ég farinn að geta talað sænsku. Vikurnar þrjár eru minnisstæðar því ég þreyttist strax á fyrsta degi á frumstæðu millimáli mínu en notaði þeim mun meira metamál þegar ég talaði við sjálfan mig (í hljóði) um sænskuna. Í Kólombíu var ég gjarnari á að taka sénsinn og óhræddur við að tala vitlausa spænsku, auðvitað vegna þess að ólíkt Svíunum töluðu Kólombíumenn ekki ensku. Þar fylgdist ég með þróun millimálsins á tíu daga tímabili og þótt ég yrði aldrei ánægður með færni mína varð það svo að mér tókst að gera mig skiljanlegan