9. Hvaða greind/greindir finnst þér áhugaverðast að hafa til hliðsjónar í kennslu þinnar greinar? Til hvaða greindar finnst þér erfiðast að höfða?
Allt nám á sér stað þegar greindirnar spila saman á flókinn hátt. Til dæmis lék ég mér að því í forfallakennslu "slakra" nemenda nú í vikunni að útskýra stærðfræði með því að virkja rýmisgreindina. Ég tók fyrir tvö stærðfræðifyrirbæri, Pýþagórasar-regluna og Pí, og útskýrði þau á myndrænan hátt. Reglan: a í öðru veldi plús bé í öðru veldi er sama og cé í öðru veldi er þannig sett fram að það er tiltölulega auðvelt að leggja hana á minnið. Ef til vill er það þess vegna sem mér tókst á sínum tíma að læra hana án þess að skilja hana. En ef hún er útfærð á myndrænan hátt eins og hér:
... sést strax að kubbarnir á skammhliðum þríhyrningsins eru jafnmargir og kubbarnir á langhliðinni. Ekki minnist ég þess að hafa nokkurn tíma verið sagt að ef lengdir skammhliðanna væru a og b væru a og bé í öðru veldi ekki lengdir heldur flatarmál.
Talnakerfið okkar, tugakerfið, er stórkostleg uppfinning eins og Meyvant kom inná fyrir ekki margt löngu. Ein er sú tala sem við höfum einsett okkur að kenna börnum sem passar engan veginn inn í þetta kerfi, en það er talan Pí. Hún er svo illa til þess fallin að vera sett fram í tugakerfinu að aukastafir hennar eru óendanlegir. Hversu erfitt má það þá vera að útskýra hana?
... sést strax að kubbarnir á skammhliðum þríhyrningsins eru jafnmargir og kubbarnir á langhliðinni. Ekki minnist ég þess að hafa nokkurn tíma verið sagt að ef lengdir skammhliðanna væru a og b væru a og bé í öðru veldi ekki lengdir heldur flatarmál.
Talnakerfið okkar, tugakerfið, er stórkostleg uppfinning eins og Meyvant kom inná fyrir ekki margt löngu. Ein er sú tala sem við höfum einsett okkur að kenna börnum sem passar engan veginn inn í þetta kerfi, en það er talan Pí. Hún er svo illa til þess fallin að vera sett fram í tugakerfinu að aukastafir hennar eru óendanlegir. Hversu erfitt má það þá vera að útskýra hana?
Skoðum þessa mynd. Einfalt reiknidæmi þar sem þjálfa á notkun tölunnar óræðu gæti verið svona: radíus hrings er 1cm. Hvert er flatarmálið? Svarið er einfalt, því flatarmálið er 3,14 svo framarlega sem við nennum ekki að skrifa fleiri aukastafi.
En ef radíus hringsins er 1cm, hvað segir það okkur um lengd og breidd ferningsins? Jú, báðar stærðir eru 2cm. Þannig að flatarmál ferningsins eru fjórir fersentímetrar. Horfum nú á myndina. Ef flatarmál ferningsins er fjórir, getur þá ekki verið að flatarmál hringsins sé um það bil 78,5% af ferningnum? Og hvað eru 78,5% af fjórum?
Jæja, á maður nú ekki að fara að koma sér að efninu?
Í málanámi er óhjákvæmilega ein greind í fyrirrúmi, en það er málgreindin. Þýðir það að maður verði að vera sterkur í málgreind til að geta átt auðvelt með að læra nýtt tungumál? Kannski. Að minnsta kosti er það líklegt að nemandi sem er mjög slakur í málgreind eigi erfiðara en sá sem er mjög sterkur. En þar sem við höfum gefið okkur það að um samspil fleiri greinda sé að ræða, skulum við hugleiða hvort ein önnur greind sé betur til þess fallin að hjálpa til í málanámi en aðrar.
Þarna koma margar til greina og kannski smekksatriði hverja við kjósum að einblína á. Samskiptagreind hlýtur að leika stórt hlutverk þegar tungumál er lært við það sem mér dettur einna helst í hug að kalla "raunaðstæður," en þá meina ég utan skólastofu. Oft hef ég velt fyrir mér eigin reynslu af því að læra sænsku og spænsku í útlöndum en hvorugt málið hef ég lært í skóla. Einnig er það spurning hvort rýmisgreindin sé ekki að miklu leyti virk þegar nemandi les texta og ræður úr honum merkingu, hvort sem það er á móðurmáli eða útlensku. Svo hef ég stundum kallað sjálfsþekkingargreindina drottningu þeirra allra því að mínu mati hefur hún mjög mikil áhrif á það hvort og hvernig allar hinar nýtast. Annars staðar hér á þessari síðu hef ég velt fyrir mér möguleikum tilvistargreindarinnar í tungumálakennslu og ætla því ekki að fara út í þá sálma hér.
En hvað með tónlistargreindina?
Enskur framburður unglinga á sér margar birtingarmyndir. Ekki trúi ég að það þurfi að rannsaka lengi til að komast að því að sami nemandi geti sýnt nánast fullkominn framburð þegar hann syngur með Nirvana í sturtunni en hljómað eins og íslenskur utanríkisráðherra ef hann þarf að lesa stuttan og einfaldan texta upp úr kennslubók fyrir framan samnemendur sína.
Þetta er augljósasta dæmið. H. Douglas Brown heldur því fram á bls. 285 í bókinni "Teaching by principles" að einn þáttur af mörgum sem hafi áhrif á færni nemanda í framburði sé "innate phonetic ability," þ.e.a.s. eins konar "eyra" fyrir því hver sé réttur framburður. Sjálfur hef ég allgott eyra að þessu leyti enda hef ég í tvígang tekið skyndikönnun Erlu og fengið þá niðurstöðu að málgreind og tónlistargreind séu saman í efsta sæti hjá mér. Kýrskýrt dæmi úr eigin reynslu er að þegar ég hafði verið búsettur í London í örfá ár og spjallaði við gamla samnemendur mína í Bandaríkjunum fannst þeim ótrúlegt hversu mikil breyting hafði orðið á framburði mínum.
Möguleikarnir til að höfða til tónlistargreindarinnar eru til staðar á öllum stigum tungumálakennslu, allt frá því að skoða raddblæ í spurningum og svörum hjá byrjendum til þess að grúska í stakhendu Shakespeares.
En ýmsar greindir virðast við fyrstu sýn ekki falla vel að tungumálanámi. Hvaða gagn er að rök- og stærðfræðigreind? Eða umhverfisgreind? Þær kæmu kannski helst að gagni ef ég reyndi að hanna inngönguleiðir fyrir nemendur sem þurfa að læra óreglulegar sagnir (sjá hér að neðan). Sumir gætu beitt rökleiðslunni (ef begin beygist svona, hlýtur run að hlýta sömu reglum) en aðrir veitt flokkunaráráttunni útrás (blow, know, throw passa saman).
En ef ég þarf að velja eina greind sem mér líst verst á kemur aðeins ein til greina, ef til vill vegna þess að ég kem alltaf sjálfur verst út í henni. Skyndikannanir Erlu hafa alltaf þau áhrif á mig að mér finnst ég vera feitur, klaufskur og með enga samhæfingu. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvernig virkja skal líkams- og hreyfigreind í tungumálanámi. Og ég skal verða fyrstur til að viðurkenna (með óbeinni tilvísun í Armstrong þar sem hann huggar börn með ofvirkan athyglisbrest í bókinni Smarter than you think) að hreyfigreindu börnin eru bara svo óskaplega erfið viðureignar í tímum.
<< Home