Monday, January 15, 2007

13. Hvert er mat þitt á þeim ályktunum sem Sigrún dregur í greinum sínum um þær leiðir sem vænlegast er að fara til að efla samskiptafærni nemenda?

Í dag var ég spurður að því - reyndar ekki persónulega heldur var spurningin hluti af fyrirlestri - hvaða viðhorf ég vildi að nemendur mínir hefðu til mín. Spurningin kom fast á hæla þeirra upplýsinga að samskipti við nemendur og agastjórnun væru þau áhyggjuefni sem oftast hrjáðu kennara. Og mér varð hugsað, einu sinni sem oftar, til leiðbeinandans Bjössa sem einu sinni vann í grunnskóla.

Hvaða viðhorfum var Bjössi að sækjast eftir?

Skólastjórinn í gamla barnaskólanum hans Bjössa réði hann til starfa fyrir nokkrum árum til að leikstýra jólaleikriti skólans - starf sem hann hefur haldið nær óslitið síðan. Skólastjórinn leit við á æfingu og hafði orð á því við sameiginlega vinkonu þeirra beggja að það væri merkilegt að fylgjast með því hversu vel Bjössi næði til barnanna.

Leiðbeinandinn hafði þetta að leiðarljósi - hann vildi ná til barnanna, að þau hefðu það viðhorf til hans að hann væri einn af þeim. Að hann félli í hópinn. Hann vildi ekki vera sá sem valdið hefur, né heldur að sú virðing sem nemendur (hugsanlega) bæru fyrir honum væri starfs hans vegna. Hann vildi öðlast virðingu nemenda á þeirra forsendum.

Hvers vegna var þetta Bjössa svona mikilvægt? Hugsanlega er skýringa að leita í lífssögu hans en það er önnur saga og of fjarri því sem hér er til umræðu. En strákur hafði þó áttað sig á einu: forsendur barnanna eru (að minnsta kosti) jafnmikilvægar og forsendur kennarans.

Sessunautur minn á fyrirlestrinum í dag ræddi við mig um sínar óskir um viðhorf nemenda til sín. Líkingin sem hann notaði fannst mér nokkuð góð - hann leggur stund á hlutverkaleiki og er þar oftast í hlutverki stjórnandans. Eini hlutverkaleikurinn sem ég þekki af eigin raun er Dungeons and Dragons, þar sem "dungeon master" er starfsheiti þess sem stjórnar leiknum. Þetta fannst mér flott sýn á hlutverk kennarans, því dungeon master á skilyrðislausa virðingu allra leikmanna - en er þó einn þeirra.

Sigrún vitnaði í kennara á framhaldsskólastigi sem allir reyndust á einu máli um það að gagnkvæm virðing kennara og nemenda væri forsenda þess að árangur næðist í námi eða kennslu, eftir því hvort litið er á málið frá sjónarhóli nemenda eða kennara.

Við höfum fengið það verkefni að ala upp þjóðfélagsþegna framtíðarinnar og verkefni okkar - eins og reyndar hefur komið fram áður hér - er að þessir þegnar verði færir um samvinnu, þátttöku í fjölbreyttu samfélagi og samskipti við einstaklinga sem ekki eru steyptir í sama mót.

Reyndar held ég að það sé góðu heilli búið að henda mótinu sem einu sinni átti að steypa alla í.

Kennari nútímans er eins og fuglamamma. Hann á að kenna nemendum sínum að fljúga, svo þeir geti komist burt úr hreiðrinu. Skilyrðislaus hlýðni heyrir sögunni til. Kennarinn er ekki lengur lærimeistari, heldur stjórnandi í hópi sem er að læra að láta ekki að stjórn. Hann þarf að byrja á því að ávinna sér virðingu nemenda sinna, og reyna að fá þá til að samþykkja sig sem meðlim í hópi þeirra.

Þetta hljómar erfiðara en það er. Nemendur sýna í langflestum tilvikum þeim kennara virðingu sem hvorki krefst hennar né telur sjálfan sig yfir nemendur hafinn. Takist kennara að sýna nemendum sínum virðingu fær hann hana til baka.

Þetta sýnist mér vera kjarninn í viðfangsefni vikunnar. Með hugsanlegum undantekningum rétt hjá Tjörninni í Reykjavík er hinn alvitri kennari sem beitir nemendur sína heraga á meðan hann hellir af skálum visku sinnar á miklu undanhaldi.

Í samfélagi nútímans virðist mér líka uppeldishlutverk vera að færast í auknum mæli frá heimili til skóla. Auðvitað hafa góðir kennarar sinnt uppeldishlutverki í aldaraðir en "í gamla daga" var það meira í samvinnu við foreldra og ekki síst stórfjölskylduna. Maður á ekki að alhæfa en ég ætla nú samt að gera það og segja að foreldrar 21. aldarinnar séu allt of uppteknir af því að halda yfirdrættinum í skefjum til þess að geta sinnt börnum sínum eins og hægt var fyrir, ja segjum fimmtíu árum. Foreldrar nútímans vinna svo mikla yfirvinnu að þau eru allt of þreytt til að kenna börnunum sínum að leysa ágreining. Enda þurfa foreldrar nútímans þannig séð ekki að hafa áhyggjur af því - yfirvinnan og vaxtalausu lánin hafa séð til þess að hægt er að planta öðru barninu fyrir framan tölvuna og hinu við sjónvarpið.

Eins og yfirleitt þegar þjóðfélagsbreytingar verða þá hefur þjóðfélaginu ekki tekist að sjá þær fyrir og búa sig undir þær. Því erum við að sjá vaxandi vandamál í skólum landsins þegar afleiðingar þess að sleppa siðferðisuppeldi koma í ljós. En skólinn mun átta sig á aukinni ábyrgð sinni í þessum málum og bregðast við.

Kennarar verða betur í stakk búnir að fjalla um siðferðismálefni. Og takist þeim að mynda gagnkvæmt traust milli sín og nemenda sinna munu nemendur læra gildin sem máli skipta. Hins vegar er nauðsynlegt, eins og Sigrún hefur verið að gera, að þjálfa kennara til þess að þeir geti tekist á við þetta verkefni.

Sé traustið ekki til staðar (eins og ég hef rekist á undir ónefndu þaki) er hætt við að nemendur reyni frekar að leysa ágreining sín á milli en hafi þeir ekki hlotið leiðsögn er ljóst að líklega mun það enda með ósköpum. Kennarar þurfa því að öðlast tækni til þess bæði að taka á ágreiningi á markvissan og árangursríkan hátt. Undir leiðsögn kennara sem hefur þessa tækni á valdi sínu (t.d. spurningatæknina sem Sigrún kynnti) læra nemendur að leysa deilumál og öðlast af því siðferðislegan og félagslegan þroska.

Það er ekki síður mikilvægt að kennarar nái tökum á því að mynda traust milli sín og nemenda sinna. Það er öllu snúnara eins og Sigrún bendir á en tækifæri fyrir kennara að ígrunda vinnu sína (auk, að ég tel, leiðsagnar þeim til handa svo þeir læri að gera það) er efalítið farsælasta leiðin til að kennarar geti myndað þetta traust.