Tuesday, January 30, 2007

15. Lestu "Listin að spyrja" og leystu verkefnin. Gerðu grein fyrir þeim ályktunum sem draga má af þessu og tengdu kennslu í þinni grein.

Verkefni 1:
Hverjar þessara spurninga telur þú vænlegastar til að skapa góðar umræður í bekknum? Hverjar telur þú að síst myndu duga? Hvers vegna?

1. Hvernig myndast þéttbýli?
2. Hve margir kaupstaðir eru á Norðurlandi?
3. Hver er höfuðstaður Austurlands?
4. Hvað myndi gerast er höfuðborg Íslands yrði flutt frá Reykjavík?
5. Hvað heitir nyrsta byggð á Austfjörðum?
6. Hvaða samgönguúrbætur á landinu eru brýnastar?
7. Hvar á landinu er best að búa?
8. Hvernig er unnt að fækka umferðarslysum?

Ef ég þarf að velja tvær spurningar sem ég tel best fallnar til að skapa góða umræðu verð ég að velja spurningar nr. 4 og 8. Aðrar koma til greina en ég vel þessar. Ástæða þess er sú að þær eru opnastar allra spurninga á þessum lista. Aðrar sem kæmu til greina væru spurningar nr. 1, 6 og 7. Sú fyrsta er að mínu mati OF opin, þ.e.a.s. forsendur þess að geta svarað henni eru margar - en að sama skapi eru þær á annan hátt ekki nógu opnar, þ.e. ekki bundnar túlkun hvers og eins heldur staðreyndum. Til að geta svarað þarf maður að vita hvernig þéttbýli hefur myndast í gegnum tíðina, er ekki svo? Spurningar 6 og 7 eru til þess fallnar að menn detti í hreppapólitík og svari út frá persónulegum forsendum eingöngu. Hins vegar finnst mér spurningar 4 og 8 feta hinn gullna meðalveg þarna á milli, þær eru ekki of háðar lesefni og gefa hæfilegt færi á persónulegri útfærslu.

Verstu spurningarnar (ef má orða það svo) eru að mínu viti nr. 2 og 5. Báðar þessar spurningar krefjast eins ákveðins svars sem er hið eina rétta. Það eru sannanlega 6 kaupstaðir á Norðurlandi og um það er engum blöðum að fletta. Að vísu kom spurningin umræðu af stað í tíma hjá okkur í gær, en það þurfti ekki annað en að gúggla til að fá rétt svar. Hin spurningin gefur kost á smávægilegri persónulegri túlkun, þ.e. hægt er að ráða hvort maður fer eftir kjördæmaskipan hinni fornu, en í raun eru í mesta lagi fjögur möguleg svör og ólíklegt að langar og frjóar umræður myndu skapast um það hvort spurt sé um Borgarfjörð, Vopnafjörð, Bakkafjörð eða Þórshöfn. Sjálfur myndi ég hér segja að Bakkafjörður væri rétta svarið. Geturðu séð hvers vegna?

Verkefni 2
Þegar þetta verkefni var lagt fyrir í tíma varð niðurstaða okkar Karenar sú að skiptingin væri eins nærri því að vera jöfn og hægt væri með 23 spurningar, semsagt 8 opnar, 8 lokaðar og 7 sem væri erfitt að flokka. Það kom hins vegar á daginn að í flestum tilfellum voru menn á öndverðum meiði. Yfirleitt skiptist það þannig að sumum fannst spurningin opin (eða lokuð) en aðrir töldu erfitt að flokka hana. Margar spurningarnar voru og þess eðlis að samhengið hafði nokkuð að segja. Sé spurning til dæmis sett fram í lok kennslulotu þar sem farið er yfir helstu atriði er hætt við að spurningin sé lokaðri en ef hún er sett fram á undan sömu kennslulotu. Niðurstaðan er augljóslega sú að ekki er alltaf hægt að skipta spurningum í tvo flokka.

Verkefni 3
Spurningar úr ævintýrinu um Rauðhettu:

A
1. Hvert var Rauðhetta að fara?
2. Hvar bjó amma hennar?
3. Hvað var Rauðhetta með í körfunni?

B
1. Hvers vegna var Rauðhetta að fara til ömmu sinnar?
2. Hvernig vissi úlfurinn um ömmuna?
3. Hvers vegna setti úlfurinn upp nátthúfu ömmunnar?

Hver er munurinn á spurningum A og B?

Spurningar A eru staðreyndaspurningar sem krefjast þess eingöngu að menn leggi ákveðnar staðreyndir á minnið. Hún var að fara til ömmu sinnar. Sem bjó hinumegin við skóginn. Og hún var með mat og áfengi í körfunni. Útrætt mál og engin önnur túlkun kemur til greina.

Spurningar B krefjast meiri hugsunar, að nemandinn velti fyrir sér orsakatengslum. Rauðhetta var að fara til ömmu sinnar af tveimur ástæðum - af því að mamma hennar sagði henni að fara, og af því að amma var veik. Úlfurinn vissi um ömmuna annað hvort af því að hann bjó í skóginum eða af því að Rauðhetta sagði honum hvert för hennar væri heitið. Og úlfurinn setti upp nátthúfu ömmunnar til að plata Rauðhettu, til að lokka hana nær sér, til að geta étið hana... og svo framvegis.

C
1. Hvers vegna heldur þú að Rauðhetta hafi talað við úlfinn?
2. Hvernig hefði sagan getað endað öðruvísi?

Þessar spurningar krefjast þess að maður setji sig í spor sögupersónu eða höfundar, túlki frá eigin brjósti og bryddi upp á nýjum lausnum sem ekki er að finna í sögunni sjálfri. Rauðhetta talaði við úlfinn af því að hún var heimsk, af því að hún vildi storka fyrirmælum mömmu sinnar, af því að úlfurinn var svo sannfærandi vinalegur... og þar fram eftir götunum. Og sagan hefði getað endað á margvíslega vegu - í dictogloss æfingu sem ég notaði í kennslu í Ármúla tók Rauðhetta sjálfvirka skammbyssu upp úr körfunni sinni og skaut úlfinn.

Það er ljóst að eftir því sem við færumst ofar í stafrófið krefjast spurningarnar meiri rökhugsunar. Skoðum bara spurningar D:

D
1. Heldur þú að amma hafi verið hrædd við úlfinn?
2. Heldur þú að Rauðhetta fari að ráðum mömmu sinnar næst?
3. Hvernig líkaði þér sagan?

Hér er farið að krefjast hugsunar á (næst) efsta stigi samkvæmt Bloom - að nemandinn meti stöðuna út frá eigin forsendum. Hann/hún þarf að setja sig í spor sögupersóna eða greina frá eigin upplifun af sögunni.

Verkefni 4
Ég ætla að hafa umræðutíma um skáldsöguna "A Clockwork Orange" eftir Anthony Burgess. Fyrir þá sem ekki þekkja, eða muna, er útdráttur hér.

1.
Hvað heitir aðalpersóna sögunnar?
Hvað heitir slangurmálið sem hann og vinir hans tala?

2.
Hvernig breytist Alex í meðferðinni?
Hvaða munur er á honum í upphafi og lok bókarinnar?

3.
Af hvaða tungumáli er slangurmálið Nadsat dregið?
Hvaða áhrif hefur Milk plus á þá sem drekka?

4.
Hvers vegna hafa foreldrar Alex gefist upp á honum?
Af hverju fer fangelsispresturinn að gráta?

5. (hér ætla ég að setja mat frekar en sköpun)
Finnst þér úrræði stjórnvalda í bókinni til þess fallin að draga úr glæpum?
Gátu telpurnar tvær sjálfum sér um kennt hvernig fór fyrir þeim?

6. (sköpun)
Hvað finnst þér að sé best að gera til að draga úr glæpum ungmenna?
Er frelsi einstaklingsins þess virði að það sé verndað, "no matter what"?

Verkefni 5
Þankahríðin sem ég stýrði var í upphafi umfjöllunar nemendahóps í Ensku 503 um skáldsöguna "Lord of the Flies" eftir William Golding. Henni var skipt í nokkur þrep og markmiðið var að nemendur veltu fyrir sér og spáðu fyrir um efni sögunnar. Ég hafði farið sérstaklega fram á að nemendur byrjuðu ekki að lesa bókina fyrir þennan tíma. Fyrst spurði ég nemendur hvað þeir héldu að bókin fjallaði um með hliðsjón af titlinum einum saman. Því næst útskýrði ég fyrir þeim að "Lord of the Flies" væri þýðing á hebreska nafninu Beelzebub og að það væri eitt nafna djöfulsins í Biblíunni. Að lokum sagði ég nemendum frá því að bókin hæfist á því þegar flugvél á leið með enska skóladrengi burt frá heimalandi sínu sem hefði orðið fyrir árás, hrapaði á eyðieyju.

Öll samskipti fóru fram á ensku og þetta var í fyrsta sinn sem ég hitti þennan nemendahóp. Það þarf því ekki að koma á óvart að nemendur voru ekki ýkja viljugir að koma með hugmyndir í fyrstu. Til að byrja með komu örfáar hugmyndir fram og ég gætti þess að hrósa þeim sem mæltu um leið og ég skrifaði hugmyndir þeirra á töfluna. Smám saman bættust fleiri hugmyndir við en í fyrstu lotu voru þó ekki nema 5 nemendur sem létu í sér heyra. Alls urðu hugmyndirnar í þessari lotu 9 talsins, einn nemandi átti þrjár hugmyndir, tveir nemendur áttu tvær hugmyndir hvor og tveir áttu eina hvor.

Í annarri lotu bættust þrír nemendur á mælendaskrá auk þess sem þrír hinna fimm sem átt höfðu hugmyndir í fyrstu lotu bættu við nýjum hugmyndum. Í þriðju lotu, þegar sögusviðið hafði verið útskýrt, bættust enn tveir nýir nemendur á mælendaskrá, einn hinna þriggja sem komið höfðu með sína fyrstu hugmynd í annarri lotu bættu nýrri við og tveir þeirra þriggja sem átt höfðu hugmyndir í öllum lotum bættu nýjum við.

Í heildina tókst mér því að fá tíu nemendur af sextán til að koma með hugmyndir. Málalengingar voru engar og ekki mynduðust heldur neinar "keðjur" í neinni af lotunum þremur. Það var greinilegt að tveir nemendur héldu þankahríðinni gangandi allan tímann en eftir því sem á leið áttu fleiri og fleiri auðvelt með að taka þátt.

Mína eigin frammistöðu tel ég hafa verið ásættanlega, ég gafst ekki upp þótt hægt hafi gengið í upphafi og má sjá af myndbandsupptökunni að ég var stöðugt á hreyfingu innan um nemendur og reyndi sífellt að vera í sambandi við sem flesta þeirra. Það kom líka á daginn í síðari tímum með þessum sama nemendahópi að langoftast gengu umræður vel og þegar ég leitaði eftir munnlegu framlagi nemenda stóð ekki á því.

Verkefni 6
Einu sinni gekk samt ekki nógu vel hjá mér. Á fimmtudegi bað ég nemendur að lesa fjóra kafla í skáldsögunni áður en við hittumst næst. Mánudagstíminn gekk frekar illa því langfæstir nemenda höfðu lesið heima. Hér á eftir fer greining á umræðum sem ég gerði tilraun til að koma af stað.

Af átján nemendum tóku aðeins fjórir til máls, þar af tveir sem svöruðu þeim spurningum sem ég lagði fram.
Sjálfur tók ég mun oftar til máls, eða fjórtán sinnum áður en ég gafst upp á því að halda umræðum gangandi og breytti um taktík - hélt fyrirlestur um það sem nemendur áttu að hafa lesið.
Í þeim tilvikum þegar nemendur svöruðu spurningum mínum komu svörin fljótt, eða innan fárra sekúndna. Þegar færra varð um svör liðu allt að átta sekúndum áður en ég endurtók spurninguna (sem ég gerði þrisvar) eða svaraði henni sjálfur (sem ég gerði tvisvar).
Einu sinni endurtók ég svar nemanda, en þá þótti mér svarið nokkuð óljóst og endurorðaði svarið og spurði síðan hvort ég væri að skilja nemandann rétt.
Einn nemandi fékk hrós hjá mér í öll þrjú skiptin sem hún tók til máls, en hinn nemandinn sem svaraði "af viti" fékk hrós í eitt skipti af fjórum sem hann tók til máls.
Enginn nemandi fékk beina gagnrýni hjá mér, en einu sinni kom ég með eftirfarandi athugasemd til alls hópsins: "I'm getting the sense that only two students did the reading for today."

Samantekt:
Samræður og spurningar eru snar þáttur í kennslu erlends tungumáls. Geta kennarans til að skapa andrúmsloft innan bekkjar eða nemendahóps þar sem nemendur tjá sig hiklaust á markmálinu skiptir gríðarlega miklu máli. Þegar kennarinn hefur tækifæri til að kynnast nemendum sínum, ólíkt þeim gerviaðstæðum sem ég lýsi úr æfingakennslunni, eru meiri líkur til að honum takist að skapa þetta andrúmsloft. Ég hef ekki teljandi áhyggjur af þessum þætti starfsins þegar ég horfi til nánustu framtíðar.