Monday, February 12, 2007

16. Lestu uppgefnar blaðsíður í bókinni Skapandi skólastarf. Svaraðu eftirfarandi spurningum:

Hverjir finnst þér vera helstu kostir þemanáms og hvað telur þú að geti hindrað þessi vinnubrögð (umfram það sem höfundur nefnir)?

Helstu kostir þemanáms eru að mínu mati eftirtaldir:
1. Þemanám þjálfar nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum, samvinnu, sjálfsmati og heimildaleit. Veigamestur þessara þátta er að mínu mati samvinnan, því oft eru nemendur móttækilegri fyrir því sem samnemendur þeirra kenna þeim en því sem frá kennaranum kemur.
2. Þemanám býður nemendum upp á tilbreytingu frá hefðbundnu bekkjarstarfi þar sem þeir eru í hlutverki þiggjandans og hafa engin áhrif á það sem fram fer í tímum.
3. Þemanám gefur nemendum kost á að skoða viðfangsefni frá ýmsum sjónarhornum, sem er mikilvæg færni í nútímasamfélagi.

Af eigin reynslu af þemanámi hef ég eftirtalda fyrirvara:
1. Sumir nemendur eru áhugalitlir, annað hvort af eigin hvötum eða vegna þess að skólinn hefur innrætt þeim að þeir eigi lítið erindi í skóla. Þegar þemanám tekur yfir skólastarfið tímabundið er mikil hætta á að þessir nemendur komist upp með að leggja ekki sitt af mörkum.
2. Sumir nemendur eru orðnir svo skilyrtir að allt annað en gamaldags innlögn er í þeirra augum ekki kennsla, og þar af leiðandi fer nám ekki fram í þeirra augum þegar þemavinna er annars vegar. Í skólum þar sem þetta viðhorf hefur náð að festa rætur er erfitt að vinna bug á því.
3. Í hreinskilni sagt held ég að stundum líti kennarar á þemavikur sem svo mikið uppbrot á sínu eigin starfi að þeir líti fram hjá því að gera þarf kröfur til nemenda og að námsmat þarf einnig að fara fram í þemavinnu. Að minnsta kosti hef ég séð þess dæmi að skólastarfið verður allt of losaralegt þegar þemavikur standa yfir.

Þegar þú lest um Undirbúning kennarans, finnst þér vanta eitthvað sem höfundur hefði átt að fjalla um?

Nú er ég ansi litaður af því sem ég er að læra í kúrsinum "Fjölmenningarleg kennsla" þar sem við erum að kynna okkur CLIM (Co-operative Learning In Multicultural groups) - en þar hafa menn verið að þróa þau vinnubrögð sem sett eru fram í bók Lilju. Svo virðist sem álit manna sé að því nákvæmari sem fyrirmæli til nemenda og skipulagsvinnubrögð kennara almennt eru, því betur gangi hópavinnan. Því sakna ég þess að í kaflanum um hópaskiptingu sé farið nánar í kosti og galla hinna mismunandi aðferða við hópaskiptingu. Einnig er ég orðinn nokkuð skotinn í hinni formföstu hlutverkaskiptingu sem notast er við í CLIM - skipuleggjandi, kynnir, tímavörður o.s.frv. Almennt sýnist mér að gott væri að fá enn nánari útlistun á því hvernig ber að skipuleggja hópastarf, þótt auðvitað sé margoft tekið fram í texta Lilju hversu mikilvæg skipulagsvinna kennarans sé.

Hver er reynsla þín af þemanámi úr grunn- og framhaldsskóla? Hvað er minnisstæðast? Hvers vegna? Berðu þá reynslu saman við efni þessara kafla.

Þrátt fyrir að hafa gruflað heilmikið og rifjað upp eigin skólagöngu er mér lífsins ómögulegt að muna eftir almennilegri þemavinnu, fyrir utan eitt dæmi. Í fjórða bekk Melaskóla vann bekkurinn minn hópverkefni um dýr á norðurslóðum. Í minningunni fór vinnan þannig fram að bekknum var skipt í nokkra hópa og borðin voru flutt til í stofunni, sem þá nálgaðist guðlast í hugum okkar barnanna. Hvert okkar í hópnum fékk ákveðið dýr að fjalla um og hver og einn bjó til veggspjald með sínu dýri. Ég man það skýrt að ég fékk gríðarlega mikið hrós fyrir myndræna og nákvæma útfærslu á snæhéranum. Það skal þó tekið fram að síðan hef ég aldrei heyrt á þá skepnu minnst. Minningin lifir þó því mér hefur aldrei, fyrr né síðar, verið hrósað fyrir myndlistarhæfileika.
Þetta er þýðingarmikið því einn tilgangur þemanáms hlýtur (eða ætti) að vera að gefa nemendum færi á að sýna færni sem þeir annars fá ekki tækifæri til að rækta.