Thursday, February 15, 2007

17. Lestu ritgerðarkaflann A Conversation with Teachers on Experiences Integrating the Curriculum og nefndu atriði þar sem vöktu athygli þína.

Kennararnir Selma, Laura og Lilja ræða saman um samþættingu námsgreina. Ekki fylgir sögunni hversu lengi þær hafa starfað við kennslu en allar eiga það sameiginlegt að hafa fengist við samþættingu frá upphafi kennsluferils síns.

1. Why they started.
Ég hef stundum látið það eftir mér að láta það út úr mér að fjölgreinda-kenning Gardners sé gamalt vín á nýjum belgjum. Það sem gerir kenninguna svo heillandi og aðlaðandi er hversu frábærlega hannaðir belgirnir eru. Hins vegar tel ég að í kenningunni felist fátt sem frábærir kennarar í aldanna rás hafa ekki gert sér grein fyrir með einum eða öðrum hætti. Einu sinni var ég að leikstýra söngleik í grunnskóla á landsbyggðinni. Kennslukona á rúmlega miðjum aldri var aðstoðarleikstjóri minn og við ræddum oft og mikið saman. Hún sagði mér frá því hversu mikil opinberun það hefði verið fyrir hana að lesa metsölubók Daniels Golemans, Emotional Intelligence. Ekki vegna þess að í henni hafi hún fundið ný sannindi sem breyttu sýn hennar á lífið og ævistarfið. Þvert á móti - vegna þess að loksins, loksins hafði verið skrifuð bók sem setti fram á aðgengilegan hátt það sem hún hafði verið að hugsa allan sinn kennsluferil.

Selma segir:
"Young children learning to read, you couldn't just approach it one way, you had to be really diverse in your thinking and bring as many different opportunities into the learning and that would mean integration."

Selma notaði að eigin sögn bæði tónlist, ljóðlist og myndlist í lestrarkennslu ungra nemenda. Ekki get ég fullyrt afdráttarlaust að hún hafi gert þetta fyrir daga Gardners en ráða má það af orðum hennar að hún hafi áttað sig á þeim krafti sem samþættingin veitir kennslunni án þess að þurfa að lesa það í bók. Þannig eru frábærir kennarar - þeir finna bestu aðferðirnar. Ekki starfa allir kennarar svona, því ég minnist þess að lestrarkennslan í barnaskólabekknum mínum gekk út á það eitt að láta nemendur lesa til skiptis og gæta þess að allir læsu jafnmikið, bæði þeir sem ekki þurftu á æfingunni að halda (eins og sá sem núna er alþingismaður og sú sem núna er tónlistarkona) sem og þeir sem græddu ekkert á því að hjakka í því sem þeir réðu ekki við (eins og sá sem núna er heimsþekktur fatahönnuður og sá sem varð framkvæmdastjóri Apple á Íslandi).

2. Hvaða þýðingu hefur samþætting fyrir þig?
Aftur er það Selma sem hefur orðið:
"Well, I guess, integration in a sense is like reality because in the real world things are integrated."
Common sense og selvfölgeligheder, jájá, en á sama tíma djúpur sannleikur. Eins ótrúlegt og það kann að virðast þá er eins og það þurfi að benda skólakerfum hins vestræna heims á augljós sannindi sem þau hafa gleymt: að hlutverk skólans er að búa nemendur undir fullorðinsárin. (Ég segi ekki lífið því þau eru víst lifandi, blessuð börnin.) Ef maður tekur eitt metafórískt skref aftur á bak og horfir á skólann sem fyrirbæri þá fer ekki á milli mála að veröldin innan veggja hans er mikil gerviveröld og á oft lítið skylt við heiminn utan hans. Eða er til vinnustaður þar sem deginum er skipt í stuttar vinnulotur og starfsmenn eiga til skiptis að vinna með tölulegar upplýsingar, tala útlensku, þylja staðreyndir um löndin sem skipuðu Sovétríkin og útskýra ljóstillífun? Sé sá vinnustaður til, þá fær hann virkilega vel þjálfað starfsfólk út úr skólakerfinu.

3. ...how...?
Nú er það Lilja sem hefur orðið og ber sig saman við hinar tvær sem báðar starfa við einkaskóla og geta leyft sér þann munað að hunsa aðalnámskrá:
"Myself, being the one who is teaching in a public school, I feel that I have to bear the curriculum guides in mind, but that they are only guidelines."
Síðastliðinn vetur varð ég vitni að hugmyndafræðilegum ágreiningi, ef svo má að orði komast, milli tveggja stærðfræðikennara. Annar hafði fylgst með hinum kenna og kom fram með harða gagnrýni: "Það sem þú ert að gera, það er ekki í bókinni!"

Ég held svei mér þá að ég þurfi ekki að bæta neinu við þetta.

4. Problems and concerns
Laura tala:
"Yes, during group work you can have hitch-hiking problems, as I call it. I think there has to be an element of group work in an activity, but it can't be the whole, entire theme."
Hér er komið það sem ég hef alltaf nefnt sem stærsta vandann við hóp- og þemavinnu, en það eru farþegarnir. Laura hittir naglann á höfuðið. Í vinnu sem þessari þarf að blanda saman hóp- og einstaklingsvinnu og gera þannig alla nemendur ábyrga og sýnilega. Hættan er að mínu mati þegar kennari vinnur ekki undirbúning sinn nægilega og nemendur komast upp með að hverfa af "radarnum" og skila ekki frambærilegri vinnu. CLIM, sem ég hef áður nefnt, er fyrirkomulag sem gætir þess að hver einstaklingur beri ábyrgð og um leið að hópurinn komist ekki af án framlags allra. Mér segir svo hugur að ég muni allnokkuð styðjast við þær aðferðir, að minnsta kosti meðan ég næ tökunum á samþættingu.

Skilningur minn á samþættingu hefur vaxið jafnt og þétt síðustu vikur og nú er svo komið að ég er farinn að sjá fyrir mér að hún skipi stærstan sess í vinnu minni næstu árin. Er þar nokkur breyting því ekki er langt síðan ég var mjög skeptískur á vinnubrögð af þessu tagi vegna neikvæðrar reynslu úr starfi mínu sem leiðbeinandi. Hér spila að ég held þrír þættir saman. Í fyrsta lagi hef ég eins og áður segir lært heilmikið um það hvernig standa skal að skipulagi. Reynslusögur Lilju, Lauru og Selmu hafa þar mest að segja. Í öðru lagi hef ég kynnst hópvinnubrögðum í praxís í fjölmenningarkúrsinum og þannig lærir maður ansi margt. Og síðast en ekki síst veit ég nú hvar ég verð í haust. Það hefur haft margvísleg áhrif á það hvernig augum ég lít það nám sem ég stunda þessar vikurnar. En vitandi það að ég kem til með að starfa við skóla þar sem fjölbreyttar kennsluaðferðir eru á dagskrá, held ég að ég muni fá allmikinn stuðning einmitt við tilraunir í átt til samþættingar.