Monday, February 19, 2007

18. Notaðu námsmatshugmyndir Armstrongs sem grunn að námsmati fyrir viðfangsefni sem þú gætir hugsað þér að kenna.

Sem nemandi hef ég aldrei haft neitt sérstaklega á móti prófum enda á ég sjaldnast í vandræðum með að sýna fram á að ég kunni það sem verið er að prófa. Þar að auki er ég á heimavelli í greind númer eitt og yfirleitt reynir mest á hana í prófum - ég og stærðfræðin höfum ekki átt samleið í lífinu síðan ég var á þriðja ári í menntaskóla.

Það er reyndar umhugsunarefni að langoftast eru málgreind og rök- og stærðfræðigreind taldar upp fyrstar þegar fjölgreindir ber á góma. Dæmi um hversu fastan sess þær skipa í hugum okkar? Eða herbragð til að fæla ekki íhaldssama skólamenn frá kenningunni? Það er nú það.

Það er hins vegar ekki ýkja langt síðan ég reyndi í fyrsta skipti að sitja hinumegin við borðið og leggja próf fyrir nemendur mína. Sú reynsla var ekki langt frá því að gera mig algerlega andvígum prófum. Reynslulítill og grænn reyndi ég fyrst að búa til próf sem gæfu nemendum færi á að sýna færni sína á fjölbreyttan hátt. Ekki gekk það allt of vel því nemendurnir töldu prófið allt of langt og allt of erfitt. Undir niðri hafði ég í einfeldni minni haldið að prófin væru sæmilegur mælikvarði á kunnáttu nemendanna í ensku og dönsku en þegar ég reyndi að finna út hvernig ætti að breyta úrlausnum í tölur á bilinu 3-10 (ég trúði því alls ekki að nokkur nemandi fengi lægra en 3 á prófi hjá mér) kom annað á daginn. Ég varð að búa mér til þannig kvarða að hver einstök villa á prófinu lækkaði einkunn um 0,1 til þess að fella ekki allan bekkinn! Og ég varð hreinlega að sleppa ritunarþættinum - eins og reyndar stór hluti nemendanna gerði.

Þannig voru nú fyrstu skrefin. Smám saman prófaði ég mig þó áfram með aðrar námsmatsaðferðir og ýmsir hlutir gengu betur. Hvað próf varðar þorði ég á endanum ekki annað en að hafa þau sem allra einföldust og fljótlegust - sem reyndar kom sér ágætlega fyrir mig því það varð svo fljótlegt að fara yfir.

Því er það að ég sé nú ekki fram á að próf muni skipa stóran sess í starfi mínu næstu árin - að minnsta kosti ekki stærri sess en ég kemst upp með að veita þeim. Hlynntari er ég fjölbreyttu námsmati og þá sérstaklega með fjölgreinda-kenninguna að leiðarljósi.

Ímyndum okkur nú að ég hafi hafið störf við grunnskóla einn ónefndan í útjaðri borgarinnar. Nemendur mínir í unglingadeild hafa undanfarnar vikur varið hluta skólatímans í að lesa "The Elephant Man" eftir Tim Vicary - sjá hér!

Nú er komið að því að meta hvort nemendur hafi meðtekið efni bókarinnar (og kvikmyndarinnar, sem við horfum að sjálfsögðu á) og gef ég nemendunum færi á að velja um eftirtalin verkefni: (Hafa ber í huga að um talsvert einfaldaða útgáfu á sögunni er að ræða.)

- Skrifaðu ritgerð um annað hvort: hvernig væri að fæðast sem John Merrick á Íslandi í dag eða hvernig þú heldur að móður hans hafi liðið þegar hann fæddist.
- Semdu lag eða rapp um örlög Merricks.
- Gerðu samanburð á Merrick og fíl, hvað er líkt og ólíkt. Hvers vegna var hann kallaður Fílamaðurinn?
- Taktu þátt í ræðukeppni um hvað hægt hefði verið að gera fyrir Merrick.
- Sýndu með látbragði hvernig þú ímyndar þér að Merrick hafi hreyft sig.
- Skapaðu myndverk (teikningu, málverk, myndasögu) um örlög Merricks.
- Settu fram tilgátu um hver kann að hafa verið skýringin á vansköpun Merricks.
- Haltu dagbók meðan þú lest söguna þar sem þú skráir viðbrögð þín við því sem þú lest.

Í öllum verkefnunum reynir á skilning en nemendur fá tækifæri til að skoða boðskap bókarinnar - hvað það merkir að vera öðruvísi - út frá mismunandi sjónarhornum. Ég sé ekki fyrir mér að í lok þeirrar vinnulotu sem farið hefur í þessa bók verði ein kennslustund lögð undir úrlausn þessara verkefna. Frekar ímynda ég mér að um einhvers konar uppskeruhátíð verði að ræða þar sem nemendur sýni afrakstur þeirrar vinnu sem þeir hafa lagt í verkefnin, en þau krefjast öll nokkurs undirbúnings.

Sem kennari met ég að hverju marki nemendur sýna fram á skilning sinn á efni bókarinnar, getu til að setja sig í spor sögupersónanna, átta sig á stöðu Merricks í samfélaginu og bera það saman við samfélag okkar, velta því fyrir sér hvernig samfélög taka á vanda þeirra sem minna mega sín - er nokkurn tíma nóg að gert? - og hugleiða orsakir og afleiðingar sjúkdómsins sem hrjáði hann. Nemendum er í sjálfs vald sett hvernig þeir tjá þennan skilning - með orðum, tónum, hreyfingum eða tilgátum - en grundvöllur námsmatsins er skilningurinn.