Saturday, April 21, 2007

19a. Hversu áreiðanlegar eru niðurstöður Rósu Maggýar og Sigurbjargar um námsmat í framhaldsskólum að þínum dómi?

Nú hef ég kynnst því að búa til próf fyrir framhaldsskólanemendur en það var hluti þeirrar ábyrgðar sem mér var falin í æfingakennslu. Í tveimur áföngum bjó ég til ritgerðarspurningar fyrir kjörbókarpróf, í öðrum gagnvirkt próf fyrir fjarnema - þar var aðeins um að ræða krossaspurningar og satt/ósatt. Auk þess samdi ég skriflegt próf upp úr skáldsögu.

Það sem að ofan er talið eru ekki lokapróf heldur hluti símats. Samt er eingöngu um skrifleg próf að ræða.

Í tveimur þessarra áfanga (303 og 403) er 60% lokapróf en í 503 er lokapróf ekki nema 35%. Þær Rósa Maggý og Sigurbjörg myndu sennilega draga þá ályktun að þar sem síðasttaldi áfanginn er ekki undanfari annars séu kennarar ósmeykir við að fara aðrar leiðir í námsmati og því sé vægi lokaprófsins minna.

En er virkilega verið að fara aðrar leiðir? Jú, rétt er að þarna er lokaprófinu sleppt, en hverjir eru matsþættirnir? Í námsáætlun kemur fra að vægi verkefna er:

Verkefni (og hópvinna) 10%
Educating Rita 10% (skriflegt próf)
Kjörbók I 15% (ritgerðarpróf)
Lord of the Flies 15% (skriflegt próf)
Kjörbók II 15% (munnlegt próf)
Textar og orðaforði: 35% (lokapróf, að sjálfsögðu skriflegt)

Ég get því ekki dregið aðra ályktun en þá að skrifleg lokapróf séu langalgengasti og veigamesti námsmatsþátturinn í framhaldsskólum landsins. Niðurstöður þeirra stallsystra gefa að mínu mati rétta mynd þótt könnun þeirra hafi verið bæði óformleg og yfirborðskennd eins og þær tóku sjálfar fram. Þetta þykir mér á skjön við þá umræðu sem hefur verið um námsmat á undanförnum misserum því mér hefur skilist að allflestir málsmetandi menn (og konur) efist stórlega um gildi og áreiðanleika prófa. Einhverjir efast minna en það eru þeir sem hafa sannfærst um að próf séu slök matsaðferð.

Það sem mér þykir enn verra er að vinnubrögðin sem ég hef orðið vitni að við prófagerð eru vægast sagt hroðvirknisleg. Algengt er að kennari gefi sér eina klukkustund til þess að semja próf sem á að gilda 10-15% af lokaeinkunn. Fyrir jólin fékk ég það verkefni að semja lokapróf í ensku 303 og var úthlutað til þess tveimur tímum. Sem betur fer fékk ég gamalt próf til að styðjast við svo verkið var fljótlegt.

Því miður held ég að það sé mjög mörgum kennurum efst í huga þegar kemur að námsmati að það sé fljótlegt. Fljótlegt að búa til, fljótlegt að fara yfir.