Saturday, April 21, 2007

19b. Í hverju er gagnrýni Black og William á ríkjandi námsmatsaðferðir einkum fólgin og hverjar eru meginhugmyndir þeirra til úrlausnar?

Leiðsagnarmat hefur að mati þeirra Black og Williams alla burði til að bæta námsframmistöðu. Niðurstöður þeirra benda til þess að þessi fullyrðing sé nánast óvéfengjanleg og að auki halda þeir því fram að til séu greiðfærar leiðir til þess að auka og bæta hlut leiðsagnarmats með jákvæðum afleiðingum fyrir alla. Hins vegar virðist þeim ekki vera vilji til þess að feta þessar leiðir og þeir ýja jafnvel að því að skólayfirvöld og kennarar hefðu gott af dálítilli naflaskoðun því hugsanlega sé einfaldlega ekki fyrir hendi sá áhugi fyrir umbótum sem gjarnan er fjasað um á tyllidögum.

Gildandi námsmatsaðferðir, segja þeir, eru ekki til þess fallnar að bæta námsframmistöðu. Þvert á móti. Samræmd próf, svo tekið sé dæmi, (hvort sem þau eru íslensk, bresk, bandarísk eða annað) prófa ekki skilning heldur minnisatriði, draga kjarkinn úr slökum nemendum á meðan þau svæfa áhugahvöt þeirra sterku, auk þess sem niðurstöður þeirra segja kennurum ekkert sem þeir hefðu ekki getað spáð fyrir um. Þessu er erfitt að vera ósammála.

Vinur minn og samkennari þar sem ég starfaði sem leiðbeinandi færði mér heim sanninn um þetta síðastnefnda fyrir ári þegar hann reyndist sannspár um einkunn 15 af 16 nemendum á vorprófi í efnafræði í 8. bekk. Sextándi nemandinn svindlaði á prófinu.

Svo virðist sem sambandsleysi sé á milli skólayfirvalda og kennarastéttarinnar. Black og Williams nefna margendurteknar yfirlýsingar breskra yfirvalda um eflingu leiðsagnarmats en enga eftirfylgni. Ég get nefnt nærtækt dæmi af eigin reynslu. Í kennslufræði erlendra mála fékk ég nýlega verkefni sem tengdist leiðbeinandi mati á ritunarverkefni. Ég notaðist við ritgerðir sem nemendur mínir í æfingakennslu höfðu skrifað um kjörbækur. Í námsáætlun áfangans (og áfangalýsingu í aðalnámskrá) segir að nemendur eigi að öðlast reynslu af ferlisritun í áfanganum. Ritgerðarprófið (ég get ekki kallað það annað) var lagt fyrir nemendur í tveimur tímum. Þar hefði verið gullið tækifæri að gera alvöru úr markmiðinu, láta kennara veita nemendum endurgjöf eftir fyrri tímann og nýta þann seinni til endurbóta á ritgerðunum.

Verkefnið sem ég var að fást við gekk einmitt út á þetta, að ég gæfi endurgjöf til nemendanna sem miðaði að því að ritgerðin yrði skrifuð aftur. Þegar ég sagði leiðsagnarkennaranum frá þessu horfði hún á mig í forundran. Nemendur hennar fengu einfaldlega einn tíma til að byrja á ritgerðinni og annan til að ljúka við hana. Ég var viðstaddur þegar nemendur fengu ritgerðir sínar afhentar og áhugi þeirra á því hvort rúm væri fyrir framfarir í ritgerðasmíð var nákvæmlega enginn. Hver einasti nemandi fór beint í tölustafinn sem stóð fyrir neðan umsögn kennarans (sem var 1-2 setningar) og þeir sem fengu 8 og 9 voru kátir, hinir ekki.

Ég er sammála Black og William um það að í raun er þörf á grundvallarbreytingu á hugarfari í skólakerfinu ef leiðsagnarmat á að eiga tækifæri til að hafa þau áhrif sem allt bendir til að það gæti haft. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og ár eftir ár hefur skólakerfið í hinum vestræna heimi gengið út á að flokka nemendur í - tjah, segjum fimm hópa. Í einum skulu lenda 7% heildarinnar, í þeim næsta 24%, þriðja hópinn skipa heil 38%, þá 24% aftur og loks koma hin síðustu 7%. Fyrsta hópinn skipa tilvonandi pípulagningamenn, þeir í miðið verða gjaldkerar og síðasttaldi hópurinn endar sennilega sem bókmenntafræðingar. Þetta vitum við um börnin strax í kringum tíu ára aldurinn en þau mega ekki byrja að skulda í bönkum fyrr en eftir átján ára aldur svo við höldum þeim í skóla þangað til. Og allan þann tíma styrkjum við þau í þeirri trú að það sé merkilegra og göfugra - að maður tali nú ekki um erfiðara - að verða bókmenntafræðingur en pípari.

Annað sem vakti mig til umhugsunar í grein þeirra (og kom reyndar fram hjá stöllunum líka) er sú staðreynd að umtalsverður hluti nemenda hefur einfaldlega engan áhuga á að taka framförum, hvað þá að standa sig frábærlega. Þetta ýtum við líka undir í kerfinu. Til þess að komast í nemendahópinn sem ég nefndi áðan (sem er ENS503) þarf eingöngu að ná 50% námsmarkmiða í ENS103, 203, 303 og 403. Svo barma kennararnir sér og eru hissa þegar flestir nemendur láta val sitt á kjörbók í ensku 503 ráðast af blaðsíðufjölda.

Hvað er þá til ráða? Jú, segja þeir, í fyrsta lagi þarf að skapa skólamenningu þar sem því er í raun og veru trúað að allir nemendur geti áorkað einhverju og þau eru ekki dregin í dilka (því hvað erum við annað að gera?) eftir tölu- eða bókstöfum. Í öðru lagi þarf að veita nemendunum hlutverk í matsferlinu. Þetta þarf að gera á raunverulegan hátt, ekki bara að nafninu til. Í títtnefnum enskuáfanga safnaði kennarinn saman jafningjamatsblöðum, renndi augum yfir þau og bjó svo til einkunn eftir eigin höfði. Nemendur höfðu líka greinilega ekki verið upplýstir um í hverju jafningjamat á að felast - flestir gáfu vinum sínum hátt en ókunnugum lágt.

Veigamesti þátturinn er samt tenging leiðsagnarmats við sjálfa kennsluna. Þarna er ég hræddur um að langt sé í land, þótt gaman verði að taka þátt í þróunarverkefni þeirra holtabúa á næstu árum. Ég er hræddur um, ef við lítum yfir sviðið hér á landi, að það sé ekki víða sem námsmat er notað til þess að móta nám og kennslu. En góðir hlutir gerast hægt og ýmislegt hefur maður nú séð sem er í rétta átt, t.d. Evrópsku Tungumálamöppuna. Kannski er það óraunhæft að ætlast til þess að stálpaðir framhaldsskólanemar hafi ekki mótast af þeim hefðum í námsmati sem hér er verið að efast um. Að ég minnist nú ekki á kennara sem hafa verið í starfi árum saman.

Ég hef áður sagt frá þeirri upplifun minni að það dugi ekki að ákveða breytingar á skólastarfi, hrinda þeim svo í framkvæmd "ofan frá" og búast svo við stórkostlegum árangri. Dæmið sem ég nefndi var um nemanda sem skildi ekkert í því hvers vegna kennslufyrirkomulagið var skyndilega allt öðruvísi en hún hafði vanist sem barn. Að mínum dómi var þetta eins og að ákveða einn góðan veðurdag að gullfiskurinn manns væri bættari án búrsins.

Það þarf sem sé að þróa ný vinnubrögð og nýtt hugarfar með nemendum og kennurum, eða eins og sagt er í bæklingnum "Self-assessment," það þarf að kenna nemendum að nota sjálfsmat, það gerist ekki af sjálfu sér. Ég fæ ekki betur séð en þessi ágæti bæklingur verði uppi á hillu hjá mér á nýja vinnustaðnum, því sjálfur hef ég ekkert nema gott af því að fá svona nákvæmar leiðbeiningar um hvernig skuli standa að sjálfsmati - og þá nemendur mínir auðvitað ekki heldur.