Saturday, April 21, 2007

20a. Framsögn og raddbeiting.

Ég er ekki viss um að öllum hafi verið mikill greiði gerður með þessum fyrirlestri þótt auðvitað hafi meiningin verið góð og þörfin fyrir hendi hjá mörgum að fá einhverja leiðsögn um þennan veigamikla þátt kennarastarfsins. Margrét gerði sér fyllilega grein fyrir þessu að mér fannst og gerði vel á þeim stutta tíma sem hún fékk.

Öndun, líkams- og raddbeiting eru hins vegar þess eðlis - eins og margt annað - að orð skáldsins Alexanders Pope koma upp í hugann: "A little knowledge is a dangerous thing." Sem leikstjóri hef ég til dæmis alltaf forðast að veita áhugaleikurum nokkra einustu tilsögn um raddbeitingu. Það getur nefnilega haft þveröfugar afleiðingar við þær sem vonast er eftir. Óreyndur leikari - og það sama á við um kennara sem hefur fengið hraðsoðna leiðsögn um röddina - á á hættu að verða of meðvitaður um sína eigin rödd, öndun, líkamsstöðu og svo framvegis. Það getur aftur leitt til streitu og álags bæði á líkama og sál - og auðvitað á röddina.

Leikarar tala yfirleitt um að það taki 3-4 ár fyrir röddina að "koma út" eins og það er kallað. Og þeir láta ekki þar við sitja. Að minnsta kosti einu sinni á ári stendur Þjóðleikhúsið til dæmis fyrir raddbeitingarnámskeiði þar sem raddþjálfari í fremstu röð er fluttur inn frá Bretlandi. Undantekningarlaust komast færri að en vilja. Í mínu tilviki tók það enn lengri tíma, enda stóð aldrei til að ég yrði leikari þótt ég fengi að mörgu leyti svipaða þjálfun. Nú hef ég rödd sem dugar til þess að fara með heimsbókmenntir á stóru sviði. Ég hef því engar áhyggjur af minni eigin rödd í kennslu. Auðvitað er ekki alveg hægt að leggja rödd leikarans og kennarans að jöfnu en að mínu viti er ársnámskeið lágmark. Kennaraháskólinn stendur sig því mun betur að þessu leyti en Háskóli Íslands frá mínum bæjardyrum séð.