Saturday, April 21, 2007

20b. Dyslexía

Alltaf vekur hann jafn mikla kátínu, brandarinn minn um minn gamla vinnustað, þar sem nemendur með dyslexíu fengu ekki annan stuðning en þann, að þar var boðið upp á stafasúpu í hádeginu á mánudögum.

Mér finnst hann samt ekkert fyndinn.

Í febrúar fékk ég að taka þátt í tíma hjá Elínu sem er kennslustjóri Dyslexíu við FÁ. Tíminn var óhemju fróðlegur og vakti til umhugsunar. Nemendahópurinn eru um 15 krakkar, flest nýkomin úr grunnskóla og þurfa á sérstökum stuðningi að halda vegna námsörðugleika. Ég hef sjálfur reynslu af því að kenna nemendum sem greinst hafa með dyslexíu en því miður hafði ég á þeim tíma enga kunnáttu til að hjálpa þeim. Þar sem ég kem til með að starfa við grunnskóla að námi loknu vil ég brynja mig og vopna og verða mér úti um þekkingu á dyslexíu til þess að geta veitt nemendum þann stuðning sem þeir þurfa.

Hópurinn sem ég hitti kemur úr ýmsum áttum. Elín leyfði mér að stjórna umræðum með hópnum og byrjaði ég á því að biðja hvern og einn að segja frá reynslu sinni úr grunnskóla. Sögurnar sem ég fékk að heyra spönnuðu afar breitt svið. Einn nemandi kom úr skóla þar sem vel þjálfað og kunnáttusamt starfsfólk hafði veitt honum mikinn og góðan stuðning frá unga aldri og aldrei látið eins og það væri nokkuð mál. Þessi nemandi er með bullandi sjálfstraust, veit að hann kann ýmislegt og getur vel lært og hefur að því er virðist aldrei litið á lesblindu sína sem stórt vandamál. Því miður var þessi nemandi undantekningin í hópnum. Ein stúlka utan af landi sagði frá því að þegar hún var á miðstigi hefði verið fenginn maður að sunnan til að prófa hana. Prófið var ekki flóknara en svo að hún fékk spjöld með eins atkvæðis orðum og átti að lesa. Þar sem henni misheppnaðist það ekki varð niðurstaða höfuðborgarbúans sú að hún væri ekki lesblind. Hún fékk síðan greiningu mörgum árum síðar, að loknum samræmdum prófum í tíunda bekk.

Það sló mig að allmargir í hópnum höfðu sömu sögu að segja – þeim hafði gengið afar illa á samræmdum prófum og foreldrar tekið af skarið og farið fram á greiningu. Skólarnir höfðu ekki sýnt það frumkvæði.

Sumir sögðust hafa fengið ýmis konar stuðning í grunnskóla en þegar ég spurði nánar út í það kom á daginn að yfirleitt var um að ræða sérkennslu. Nemendur voru teknir út úr bekknum sínum í ákveðið mörg skipti á viku og fengu að læra í minni hópum, ýmist sama námsefni og bekkurinn eða það sem verra var – léttara efni. Þessir nemendur upplifðu þetta sem dóm yfir sér, að þau væru ófær um að læra, réðu ekki við það sem “venjulegir” nemendur gætu og ættu því enga framtíð fyrir sér. Sjálfsmynd sumra var nokkuð illa farin.

Það sló mig að svo virtist sem það væru hinir gömlu, rótgrónu skólar sem stæðu sig verst hvað þetta varðar.

Umræðunni lauk þannig að Elín bað hvern og einn að veita mér eitt heilræði sem ég ætti að taka með mér út í nýja skólann minn. Var mér ráðlagt að sýna nemendum umburðarlyndi, þolinmæði og virðingu, tala ekki niður til þeirra, hlusta á þá og taka tillit til þarfa þeirra. Því miður virðist víða pottur brotinn í þessum efnum.

Það sló mig þegar ég hugsaði málið eftir tímann hversu ólíka sögu nemendur hafa að segja, allt eftir því úr hvaða skóla þeir koma. Það virðist bókstaflega hvorki vera til staðar nein heildræn stefna í málefnum nemenda með dyslexíu, né heldur eru skólar að tala saman.