Thursday, April 26, 2007

Kenning um starfskynningu

...eða var það öfugt?

Í gær hittumst við í hinsta sinn í kennslu erlendra tungumála. Þar eigum við að skila ritunarverkefni sem kallast "Starfskenning mín" eftir hálfan mánuð og það sem við gerðum í gær var að hver kennaranemi fékk að tala í fimm mínútur um hvað hann eða hún væri að pæla í þeim efnum.

Þetta var gagnlegt - bæði sem hugmyndabanki og einnig til ígrundunar og endurgjafar okkar hvert á annað - og þó sérstaklega gaman því flest erum við orðin svo sjóuð að okkur tekst bærilega að halda fimm mínútna fyrirlestur.

Ég var dálítið skrítinn í hausnum því í öllum erlinum sem fylgir því að ljúka námsári var ég svo óheppinn að vera andvaka aðfaranótt þriðjudags. Svo var ég svo þreyttur á þriðjudagskvöldið að til að vera nú alveg viss um að verða ekki andvaka aftur (það gerist alltaf þegar síst skyldi hjá mér) þá tók ég svefntöflu. Og var svo þungur þegar ég vaknaði á miðvikudag að ég skellti í mig þremur koffíntöflum fyrir tímann. Mæli ekki með því.

En hér ætla ég að segja aðeins frá því sem ég fjallaði um og þeim ábendingum og spurningum sem ég fékk.

Reyndar tel ég að starfskenning hafi minni áhrif á það hvers konar kennari maður verður heldur en sá vinnustaður sem hreppir mann. Ég er svo heppinn að hafa fengið vinnu við spennandi og framsækinn skóla sem er að leggja í þróunarvinnu í námsmati. Ég hlakka mikið til að takast á við það enda hef ég gríðarlega sterkar og neikvæðar skoðanir á námsmati eins og það er í dag.

"Providing opportunities for kids to experience success" er setning sem varð á vegi mínum í vetur og ég hreifst svo af að ég hripaði hana niður á miða sem ég hef geymt í "ferilhrúgunni" minni. Það er ein helsta ástæða þess að ég hef ánægju af því að kenna að sjá þegar nemandi nær tökum á einhverju, skilur eitthvað eða heppnast annað. Eins og kvikni á ljósaperu.

Ég starfaði sem leiðbeinandi í grunnskóla en var þar dálítið eins og Homo Habilis - notaði það sem ég fann á förnum vegi, á víðavangi, í vinnustofu kennara eða á netinu en átti sjálfur engin kennslutæki. Nú í vetur hef ég eignast heila verkfæratösku. Og hvað er nú í henni? Auðvitað fjölmargt og sumt sem ég hef aðeins kynnst lítillega og á eftir að lesa leiðbeiningabæklinginn við. En það sem stendur upp úr: þrenns konar -based learning (problem-, task- og content-), samræður og spurnartækni (sem ég hef mikið velt fyrir mér nýlega), samþætting námsgreina, rúbrikkur, tungumálamappan og fleira og fleira.

Hvaða fræðingar hafa heillað? Jú, auðvitað Goleman og Gardner en þá þekkti ég áður; Csikszentmihalyi er líka ofarlega í huga - mér tókst að upplifa "flæði" í æfingakennslunni í eitt skipti - og einnig má nefna Tomlinson, Bandura (úr áhættuhegðunarkúrsinum), Cohen (úr fjölmenningu) og Leni Dam, þótt ég eigi enn eftir að ljúka við bókina sem við vorum látin kaupa.

Ég leit yfir forverkefni þar sem ég skrifaði vísi að starfskenningu í haust og var sammála flestu sem þar stóð. Eitthvað hefur viðhorf mitt til skóla mýkst í vetur því ég virðist í haust hafa litið á skóla sem meðal annars geymslustaði fyrir börn svo foreldrarnir þurfi ekki að sinna þeim. Þessa lýsingu endurtók ég fyrir framan samnemendur mína í gær en fann að það var engin sannfæring á bak við.

Nú, að síðustu fékk ég lánaða tilvitnun í Goethe hjá ónefndri konu, en hún hljómar svo:

Komdu fram við fólk eins og það sé það sem það ætti að vera, og þú hjálpar því til að verða það sem það getur orðið.

Endurgjöf okkar var skipulögð með framúrskarandi sniðugum hætti. Við fengum öll litla gula miða og áttum að skrifa athugasemdir og spurningar. Hér birti ég það sem ég fékk frá mínum heittelskuðu samnemendum, algerlega án þeirra leyfis:

I have faith that you will be a good teacher - whatever you say! Keep turning on the lights!
(One day I'm sure I will be.)

Þú mætir black og dekkeraður í skólann í haust. Þú verður fræðilega til fyrirmyndar, geri ég fastlega ráð fyrir!
(oooo, maður á nú margt ólært ennþá)


Sammála þér með matið á skólakerfinu í dag. Ég vona að ykkur gangi vel með þróunarverkefnið.
(Það er eins gott að það gangi vel.)

Hvaða hlutverk finnst þér mikilvægast í starfinu?
(Ég held að það sé mikilvægast að hlutverkin séu mörg.)

Þú ert metnaðarfullur og mjög jákvæður. Halda áfram að vera svona. Gangi þér vel.
(Metnaðarfullur? Þú ættir að sjá mig búa til kennsluáætlanir.)

Alltaf jafn gaman að hlusta á þig.
(Hefur greinilega misst af Megasar-sögunni minni heima hjá Herdísi um daginn!)


Þú hefur pottþétt verkfærin og viljann til þess að verða mjög góður kennari.
(Já, allavega einhver verkfæri og ekki síst viljann til að finna fleiri tól.)

Hvaða kennslukenningar klæða þig best og hvers vegna?
(Ég tek mig nú eiginlega best út í ballkjól.)

Hvernig náðirðu flæði í kennslunni?
(Það er einmitt trixið, maður nær því ekki með að reyna, það bara kemur.)


Ég sækist voða mikið eftir skilningsglampanum. Við verðum bara að muna að gefast ekki upp inn á milli.
(Kemur ekki til mála!)

Þér á sko eftir að ganga vel með að nota tólin í töskunni.
(Og ég sem á ekki einu sinni borvél.)

Flott verkfærataska. Gangi þér vel næsta vetur.
(Takk. En verð ég ekki líka að kunna á verkfærin?)

Gangi þér vel. Spennandi skóli sem þú ætlar að starfa við.
(Hann er líka spennandi af því að enginn veit hvernig hann verður eftir 2-3 ár.)

Skóli er ekki bara geymslustaður - ekki gleyma skólaskyldunni.
(Nei, rétt - ekki bara geymslustaður. En hann er það samt að vissu leyti.)

Bra!
(Schysst!)

Þú virðist vita hvað þú ert að gera og hugsa, haltu því áfram... Good luck! Suerte!
(Hvað betyder suerte?)