Saturday, May 05, 2007

21. Hvað gætu þeir aðilar sem vildu stuðla skólabreytingum lært af niðurstöðum Michael Fullan?

Þolinmæði er dyggð sagði þekktur knattspyrnuþjálfari eitt sinn við lið sitt. Þetta gætu skólayfirvöld landsins grætt mikið á að hafa bak við eyrað. Skólar eru merkileg fyrirbæri, í sífelldri þróun en samt er erfitt að breyta þeim. Heraklítus sagði að ekki væri hægt að stíga tvisvar út í sömu ána og það mætti kannski líkja skólaþróun við einhvers konar viðleitni að beina fljóti í nýjan farveg. Það er ekki hægt að lyfta ánni upp og ganga með hana í fanginu þangað sem maður vill að hún fari, heldur verður að beita réttri blöndu af verkfræðiþekkingu og þolinmæði.

Það er til dæmis ekki hægt að ákveða inni á skrifstofu að stytta framhaldsskólann í þrjú ár og halda að þar við sitji. Jafnvel þótt við gefum okkur þá forsendu - just for the sake of argument - að það sé gríðarlega hagkvæmt þjóðhagslega að fá ungt fólk ári fyrr út á vinnumarkaðinn - eða í háskóla - þá eru aðrar breytur sem taka þarf tillit til. Hvað finnst kennurum? Hvað finnst skólastjórnendum? Hvað finnst nemendum? Hvað finnst aðilum vinnumarkaðarins? Og þar fram eftir götunum. Sú leið sem mér sýnist hafa verið farin, að láta skólafólk nánast lesa um það í blöðunum að til standi að gera grundvallarbreytingu á heilu skólastigi, er ekki til þess fallin að fylkja fólki um tilgang breytinganna.

Innan hvers skóla þarf að vera fólk sem hefur brennandi áhuga á skólaþróun. Ég er ekki viss um að sú sé raunin þótt svo sé mælt fyrir í námskrá að skólar skuli leggja stund á sjáfsþróun. Þegar ég starfaði sem leiðbeinandi var ég til dæmis skikkaður í starfshóp um skólaþróun, með enga þekkingu og enn minni áhuga á slíku, með þeim rökum að það væri skylda hvers skóla að eiga slíkan starfshóp. Á hverjum fimmtudegi þurfti ég að lengja vinnudaginn um tvo klukkutíma til þess að taka þátt í einhverju því ómarkvissasta gaspri sem ég hef á ævi minni vitað. Það er því að mínu mati lykilatriði að breytingar verða ekki fyrir skipanir að ofan, heldur því aðeins að líf sé í grasrótinni. Hún ein getur stöðvað mosavöxtinn.

Nauðsynlegt er einnig að horfast í augu við að nóg er til af fólki innan skólakerfisins sem hefur takmarkaðan áhuga á breytingum. Tengdapabbi minn, sem kenndi í grunnskóla í hálfa öld, bölvar enn í sand og ösku á mannamótum manninum sem hann segir hafa "myrt" landsprófið. Ekki er hægt að ætlast til þess (eða hvað?) að allir sem starfa innan skólakerfisins séu eldhugar með fingurinn á púlsi þess nýjasta og mest spennandi sem er að gerast í heiminum. Margir kennarar eru eflaust sáttir við sína rútínu eins og hún er og nenna ekki að leggja á sig þá vinnu sem felst í breytingum. Hvers vegna að breyta því sem virkar, hugsa þeir, til þess að reyna eitthvað sem ekki hefur verið prófað og við vitum því ekki hvort gerir sama gagn?

Ég hef nefnt mikilvægi þess að frumkvöðlar breytinga fái fólk á sitt band og þar skiptir samskiptafærnin miklu. Ekki síður er mikilvægt að stuðningur sé fyrir hendi eftir breytingar, meðan fólk er að venjast nýjum reglum og starfsháttum. Dæmi um þetta er "skóli án aðgreiningar" en ég er ekki viss um að alls staðar hafi skólar verið í stakk búnir að taka við öllum þeim nemendum sem bættust í flóruna þegar sú stefna var tekin upp. Eina dæmið sem ég þekki af eigin raun er svo slæmt að ég get ekki trúað öðru en að um undantekningu hafi verið að ræða en eigi að síður tel ég að skólayfirvöld hafi ekki verið tilbúin að takast á við það aukna álag sem breytingin olli mörgum.

Ekki eru alltaf allir á eitt sáttir þegar skólaþróun er annars vegar eins og dæmin sanna. Ágreiningur kemur óhjákvæmilega upp annað slagið og horfast verður í augu við að það er eðlilegt, jafnvel æskilegt því þannig komast ólík sjónarmið upp á yfirborðið og eru rædd. Að því gefnu (og vonandi er það svo) að þeir sem ætla að koma breytingum í kring hafi skoðað allar hliðar málsins og vinni af sannfæringu, má búast við að breytingum verði áorkað þótt hægt verði. Hér er það aftur þolinmæðin, auk samskiptafærninnar og getu til að hlusta á ólík sjónarmið, taka það ekki óstinnt upp þótt allir séu sammála, sem ræður úrslitum.

Góðir hlutir gerast hægt, en mishægt þó. Þegar nýr skóli er stofnsettur í nýju hverfi er hægt að leggja upp með ákveðna framsækna skólastefnu því engin hefð er fyrir hendi sem nokkur maður gæti viljað halda í. Þegar um rótgróna skóla með mikla hefð er að ræða er róðurinn efalítið þyngri, sem þarf þó ekki að vera alslæmt. En það verður til dæmis áhugavert að fylgjast með gamla barnaskólanum mínum, sem mun skipta um skólastjóra í sumar. Verður ráðinn innanbúðarmaður eða róttækur eldhugi? Verður lagt upp með að halda í hefðir eða umbylta öllu á einni nóttu? Svarið gæti sagt okkur hvort þeir sem taka þá ákvörðun hafi lært eitthvað af Fullan.